Barna Skírnin, villutrú!

Það virðist vera einknni á Íslendingum að þeir eru skírðir og fermdir. Menn hafa tengt þessar athafnir við kristnina og telja það eðlilegan þátt trúarinnar. Hvergi er talað um ,,fermingu" í Biblíunni þó svo að hún sé orðin tengd játningu um skírnina eða ,,staðfestingu" hennar.

Miðað við kenningu kirkjunnar um barnaskírnina þá er ,,staðfesting" fermingarbarnsins algerlega óþörf þar sem kenning ,,kirkjunnar" er sú að skírnin tengi barnið við náð Jesú Krists og sé forsenda til sáluhjálpar. Skírnin á að verka til sáluhjálpar barnsins án staðfestingar eða fermingar.

Nú er kenning kirkjunnar sú að skírn verði að viðhafa til að sáluhjálp geti átt sér stað. Þessi kenning er grundvölluð á kristniboðsskipuninni:,,gjörið allar þjóðir að lærisveinum með því að skíra þá í nafni Föður,Sonar og Heilags Anda"! Þetta var ástundað af postulum, trúboðum og prestum kristinnar kirkju. Vandinn er bara sá að áður, í frumkirkjunni var mönnum niðurdýft, þeir færðir á kaf í vatn og svo reistir upp úr vatninu. Barnaskírnin hefur hvorki vatnsmagn né kaffæringu í athöfninni. Þá er barnaskírnin allt annað en niðurdýfing eða Baptism.

Hafi kenning kirkjunnar þennan trúargrundvöll sem verður börnum til sáluhjálpar, grundvallað á orði Guðs, þarf þá athöfnin ekki að vera sem líkust upprunalegri boðun með vatnsmagni til að kaffæra einstaklinginn? Biblían notar gríska orðið ,,baptismo" sem þýðir ,,niðurdýfing" en kirkjuhefðin hefur skipt því út fyrir skírn = hreinsun, eins og skíra gull eða skíra silfur.

Kirkjan teflir fram barnaskírninni á þennan hátt í kenningarriti sínu ,,Concordia the Lutheran confession" (kafla 9, bls 153) ,,Baptism is necessary for salvation" that ,,children are to be baptized", ,,Baptism of children is not vain, but necessary and effective for salvation"!

Á íslensku útleggst þetta svo:,,Skírnin er nauðsynleg til sáluhjálpar", ,,börn skulu skírð"! ,,skírn barna er ekki ónauðsynleg, heldur nauðsynleg og áhrifarík til sáluhjálpar"! 

Hvers vegna var þá Páli postula ekki sagt að fara um allan heim og skíra áheyrendur sína? Hann segir:,,Ekki sendi Kristur mig til að skíra, heldur til að boða Fagnaðarerindið- ekki með orðspeki til að kross Krists missti ekki gildi sitt."(1.Kor.1:17) Kirkjan er búin að gera skírnina meira verða en Fagnaðarerindið um Kross Jesú. Gildi krossins er einmitt það að vegna þess sem á honum gerðist opnaðist leið, vegurinn inní hið allra helgasta. Blóð Krists er því kjarnaatriðið ekki barnaskírn. Enda kennir postulinn Efesusmönnum þetta:,,Í honum, fyrir blóð hans eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu afbrota vorra."(Efes.1:7)

Niðurstaðan er því þessi að boðskapurinn heyrist og við honum er tekið, þá verða menn hólpnir. Trúin kemur af boðuninni og sáluhjálpin þegar við tökum við og treystum Orðum Jesú.

Hvar kemur þá skírnin inní Fagnaðarerindið? Allir kristnir söfnuðir skíra/niðurdýfa um heim allan. En ekki á forsendum þjóðkirkjunnar heldur orðum Biblíunnar. Skoðum þetta:

a. Ræninginn á krossinum sem Jesú talaði við heyrði:,,Sannlega segi ég þér, í dag skaltu vera með mér í Paradís"! (án skírnar) Var þá leiðin opin fyrir hann þegar hann sagði:,,Hræðist þú ekki einu sinni Guð og ert þó undir sama dómi?" Með þessari játningu kom sáluhjálpin til hans.

b. Trúin kemur af boðuninni og boðunin byggist á Orðum Jesú Krists. ,,Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum muntu hólpinn verða (Róm.10:9 - 10) Þess vegna var Páll ekki sendur til að skíra. Við verðum nefnilega hólpin án skírnar!

Til hvers er þá skírnin?
Segir ekki Páll í Galatabréfinu:,,Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.(fyrsta atriði) Allir þér sem eruð skírðir til samfélags við Krist (annað atriðið) þér hafið íklæðst Kristi."(Gal.3:26- 27)

Páll segir við Títus:,,Þá frelsaði hann oss ekki vegna réttlætisverkanna (skírnarinnar?) sem vér höfum unnið heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gerir oss nýja"! Hvaða laug er það? Vatnið eða blóðið?

Miðað við Orð Biblíunnar, þá er frelsislaugin ,,blóð Jesú sem hreinsar oss af allri synd"og í Efesusbréfinu segir:,,til þess að lauga hana og hreinsa í laug vatnsins með Orði!" Hérna tengir postulin saman vatnslaugina og lindina sem má einnig heita ,,Orðið"! Ekki verður betur séð en að þetta haldist í hendur að trúa því Orði sem prédikað er og svara með athöfn skírnarinnar.

Illu heilli hefur barnaskirnin verið gerð að þessari frelsislind og skyggir á trúarréttlætið sem fæst með því að heyra Fagnaðarerindið og taka við því! Segir Páll ekki við Korintumenn:,,En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn drottins Jesú og fyrir anda vors Guðs."(1.Kor.6:11)

,,Létuð laugast"? Orðalagið bendir til að sá sem skírðist tók sjálfur meðvitaða ákvörðun. Barnaskírnin er höfð án þess að viðkomandi hafi nokkuð um það að segja enda í flestum tilfellum ómálga hvítvoðungur sem hvorki hefur heyrt Fagnaðarerindið eða tekið afstöðu til þess.

Hvað er þá skírnin? Hún er ómissandi þáttur kristninnar. Ég vil minna á hvernig Pétur prédikaði á fyrsta hvítasunnudeginum þegar hann segir: ,,Gjörið iðrun og látið skírast.." (post.2:38) Þetta eru tvö samliggjandi skref, hið fyrsta að iðrast og annað skírast (niðurdýfast). Niðurdýfingin er þá sett fram sem svar okkar. Kemur vel heim og saman við Kennslu Péturs í 1.Pétursbréfi 3:21 ,,Með því var skírnin fyrirmynduð (í Nóaflóði)sem nú einnig frelsar yður, hún sem er ekki hreinsun óhreininda af líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists.." Svona hafa menn þýtt orð Péturs samkvæmt kirkjuhefðinni. En í grískunni er hvergi talað um ,,bæn til Guðs"! Hér notar Pétur orðið Epirotima= svar! Þá er niðurdýfingin svörun góðrar samvisku okkar gagnvart boðskapnum um Kross Jesú, sem má ekki missa gildi sitt.

Þessi framsetning setur skírnina í allt aðra stöðu en barnaskírendur hafa haldið fram með fjárframlögum ríkisins ár hundruðum saman. Samkvæmt bók sr.Sigurbjarnar Einarssonar biskups ,,Coram deum" varð barnasírnin ekki alsiða fyrr en eftir 1350 svo hún kom löngu seinna í kirkjuathafnirnar en niðurdýfingin.

Hið upprunalega er því að skírn skuli vera Niðurdýfing enda kennir Páll postuli í Rómverjabréfinu kafla 6: ,,Vitið þér ekki að vér sem skírðir (niðurdýfðir) erum til Krists Jesú erum skírðir til dauða hans? Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var uppvakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins." Þessi athöfn lýsir fullkomnlega því sem við fáum með niðurdýfingunni. Þetta er því útför, greftrun, samfélag við dauða Jesú og svo upprisa, frá dauðum og innganga inní líf með Jesú það sem framundan er.

,,Sá sem trúir og skírist/niðurdýfist mun hólpinn verða"! Vantar nokkuð niðurdýfinguna í þitt kristnihald?

Snorri í Betel

 


Bloggfærslur 17. apríl 2021

Um bloggið

Snorri í Betel

Höfundur

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson

Er lífeyrisþegi og notar tímann til að fylgjast með Ritningunum rætast! Var safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri 2004 - 2018 og kennari í Brekkusóla frá 2001 til 2013.

Hef stundað kennslu frá 1973 á Vopnafirði. Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja frá 1975, Barnaskóla Vestmannaeyja, Iðnskóla- Vélskóla og Stýrimannaskóla Vestmannaeyja. Gerðist kennari við Framhaldsskóla Vestmannaeyja við stofnun hans og fram til 1986. Hóf aftur kennslu við Hamarsskóla Vestmannaeyja uns ég flutti til Akureyrar sumarið 2001.

Hef veitt Hvítasunnukirkjunni Betel í Vestmannaeyjum forstöðu fram til miðs árs 2001 og verið forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri frá 2004 - 2018. 

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_6438
  • IMG_6438
  • IMG_2207
  • IMG_1548
  • friðrik

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband