Jesús er Kristur, upprisinn!

Enn líður að páskum og Passíusálmarnir hljóma í útvarpinu. Þar fjallar heittrúarmaður um fórnardauða Jesú Krists á þann hátt að verkið er hreint listaverk. Sumir hafa bent á að við tilurð Passíusálmanna þá rættist spádómur hjá Jesaja 24:16 "Frá ysta jaðri jarðarinnar heyrðum vér lofsöngva:"Dýrð sé hinum réttláta!" Ýmsir aðrir hafa haft orð á fórn Jesú og bera þar fram allt annað sjónarmið en gæsku og kærleika gagnvart okkur mönnum heldur heift, hatur og grimmd Guðs gagnvart syni sínum.

En þessir dagar eru auðvitað notaðir til að rifja upp og bera á borð þennan merkilega boðskap að fyrir trú okkar á Jesúm Krist verður okkur launað með eilífu lífi - það verður framhald á tilverunni - svo við fáum að ganga í gegnum dauðans dyr aðeins einu sinni og síðan aldrei meir.

Er nema von að einhverjir hnjóti um staðhæfinguna? Sérstaklega getur það verið ögrandi fyrir okkur þegar við höfum ekki alveg hugsað málin. og sannfærst

En því er nefnilega svo farið að hinn trúaði trúir ekki blint heldur hefur hann rök, orsök og afleiðingar í skoðunum sínum. Hinn vantrúaði hafnar heldur ekki blint boðskap trúarinnar, hann rökræðir og setur atriðin inní sinn hugarheim, vegur og metur, íhugar en hafnar á sínum forsendum, oft þeim að hann skilji ekki málið. En skilja menn allt? Við skiljum ekki endilega hvernig flugvélar fljúga en við ferðumst með þeim samt af því að við treystum og sjáum að dæmið gengur oftastnær upp.

Hinn kristni sér gæsku Guð og verk hans í krossdauða og upprisu Jesú en einnig ógn, skelfingu og óhuggnað.   Fyrir bragðið getur hinn kristni hlýtt á Passíusálmana, komist við og verið svo innilega sammála höfundinum.

En þegar Hallgrímur fjallaði um fórnardauða Krists þá lagði hann út frá Guðfræði síns tíma og gerði Jesú dýrlegan en fjallaði lítið um kirkjuna. Gyðingarnir fá að finna til tevatnsins fyrir skammsýnina að  hafna Syni Guðs. Þeir höfðu sömu afstöðu og vantrúin teflir fram í dag.

Í dag virðist fórnardauði Krists skipta menn mun minna máli en hjá þeirri kynslóð sem Hallgrímur Pétursson tilheyrði. Ætli við í dag vitum eitthvað meira um málin sem gerir þau ótrúverðugri?

Veistu að hundruð manna voru sjónarvottar að krossfestingunni? Frá henni er greint í samtíma heimildum af sjónarvottum. Einn t.d rannsakaði kostgæfilega frásagnirnar og komst að þeirri niðurstöðu að sögurnar sem skráðar eru um Krist af sjónarvottunum eru dagsannar.

Hann var krossfestur samkvæmt ritningunum. Þar er vísað til spádóma frá fyrstu dögum mannkynsins fram til Móse og Davíðs. Opinberarnir um hinn þjáða þjón er skráð einum 600 árum áður en atburður krossfestingarinnar átti sér stað (Jes.53).

Í Toledó á Spáni er varðveittur sveitadúkur sem notaður var við að hjúpa höfuð Jesú Krists þegar hann var tekinn niður af krossinum eftir andlátið. Í þeim dúk eru blóðblettir af flokki AB og lungnavessar sem láku í dúkinn þegar líkaminn var lagður á grúfu meðan fæturnir voru losaðir frá. Saga sveitadúksins er sagnfræðilega staðfest og heil frá fystu öld til okkar daga. Víða eru fornar heimildir um þennan dúk.

Á Ítalíu eru varðveitt líkklæðin, þau einu sinnar tegundar- með innbrennda mynd af krossfestum manni. Í þeim er blóðið af flokki AB. Líkamsvökvarnir sem eru í klæðinu sýna að sveitadúkurinn á Spáni og þessi líkklæði voru notuð á sama manninn í sama skipti á sama tíma og aðeins þennan eina krossfesta mann. Þar finnast einnig för eftir blóm sem lögð voru á blautt klæðið. Þessi blóm voru öll í blóma og vaxa aðeins í Jerúsalem, Kedrondalnum og þar í kring. Blómatími þeirra er í mars/apríl eða um páska!

Búið er að rannsaka þessi líkklæði í 150.000.- vinnustundir og alltaf er meira og meira að koma í ljós. Á augu þess krossfesta voru lagðir peningamyntir sem slegnir voru og notaðir á árabilinu 29 - 33 e.kr. Letrið á þessum peningum sýnir einkennisstafi Pontíusar Pílatusar.

Hægt væri að rita mikið um sárin og sögu klæðanna en allt ber að sama brunni og það er að klæðin eru ekta og þau hjúpuðu líkama Jesú Krists þegar hann var grafinn. 

Í mínum huga er hér sönnun að hafa sem staðfestir sögu Guðspjallanna og sannar fyrir þér að uppgjörið við synd og Satan var fullkomið og áreiðanlegt. Því er þér ekkert að vanbúnaði að hefja gönguna með Guði í trú á Jesúm Krist vitandi það að hann er með þér alla daga, allt til enda veraldarinnar.

Mundu: "Hver sem játar með munninum og trúir í hjartanu að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, mun hólpinn verða."

Enginn annar trúarbragðahöfundur hefur yfirgefið gröf sína - þeir voru sama eðlis og við!

Jesús Kristur er kröftuglega auglýstur sem sonur hins lifanda Guðs! Amen.

 

kær kveðja

Snorri í Betel 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Í austurkirkjunni eru páskarnir langstærsta hátíð kristinna manna. Þar heilsast menn um páska með kveðjunni: "Kristur er upprisinn" og trúaðir svara "já hann er sannarlega upprisinn". Maður þarf ekki einu sinni að vera kristinn til að þykja hátíðlegur blær yfir þessu.

Sigurður Þórðarson, 28.2.2008 kl. 00:27

2 Smámynd: þorvaldur Hermannsson

Sæll nágranni.kv

þorvaldur Hermannsson, 28.2.2008 kl. 00:36

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Frá henni er greint í samtíma heimildum af sjónarvottum.

Nei.

Einn t.d rannsakaði kostgæfilega frásagnirnar og komst að þeirri niðurstöðu að sögurnar sem skráðar eru um Krist af sjónarvottunum eru dagsannar.

Nei, hann sagðist hafa rannsakað þær kostgæfilega. Miðað við sumar sögurnar hans (t.d. fæðingarfrásögnina), þá er greinilega ekki hægt að treysta dómgreind þessa manns.

Þessar frásagnir þínar af líkklæðinu og svitaklútnum verða sífellt stórbrotnari. Allt í einu birtast myndir af blómum sem geta bara verið frá páskatíma Jerúsalems og peningar sem geta bara verið frá tíma krossfestingarinnar!

Hjalti Rúnar Ómarsson, 28.2.2008 kl. 00:42

4 identicon

Elsku kallinn minn það er búið að aldursgreina þessi klæði, það er búið að afsanna dæmið á marga máta.
Það vill svo vel til að ég bloggaði um þetta mál eins og svo mörg önnur sem viðkoma yfirnáttúrulegum hlutum
http://www.youtube.com/watch?v=Fn1HLuWCKUM

Upprisa verður ekki sönnuð með grein í bók en njóttu páskanna

DoctorE (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 10:40

5 Smámynd: Sigurður Rósant

Snorri - Mér sýnist sem þessi samantekt þín sé ekki alveg í samræmi við það sem lesa má um á Vísindavefnum.

Eftirfarandi er að finna á Vísindavef Háskóla Íslands  

"Andstæðingar þeirrar hugmyndar að Tórínó-klæðið megi rekja til Jesú Krists benda helst á frásögn Jóhannesarguðspjalls, 20. kafla. Þar segir að Jóhannes, lærisveinninn sem Jesús elskaði, og Pétur hafi komið að gröfinni, sá fyrr nefndi á undan, og hann „laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.“ Hér er með öðrum orðum um tvo hluti að ræða, en ekki einn."

"Í Oviedo á Spáni er reyndar varðveittur andlitsdúkur, 84 x 53 cm að stærð, ævaforn og blóðugur, ekkert merkilegur þó á að líta í fljótu bragði, en hefur einhverra hluta vegna þótt sérstakur og þess virði að geyma í traustri hirslu, og frjókorn í honum benda til Palestínu. Nýleg rannsókn vísindamanna gefur til kynna að klútur þessi sé í órjúfanlegum tengslum við áðurnefnt Tórínó-líkklæði, hafi verið í snertingu við sama einstakling."

"Ef hratt er farið yfir sögu benti kolefnistrefjarannsókn, sem gerð var á Tórínó-klæðinu árið 1979 og síðan aftur 1988, þó til þess að um svik væri að ræða. Vísindamenn frá þremur háskólum komust að þeirri niðurstöðu að það væri frá árabilinu 1260-1390."

Sigurður Rósant, 28.2.2008 kl. 18:14

6 Smámynd: Sigurður Rósant

Snorri - "Enginn annar trúarbragðahöfundur hefur yfirgefið gröf sína - þeir voru sama eðlis og við!"

Hér fyrir neðan er sagt frá Hórusi, syni Osíris, sem var sagður Osíris endurfæddur. Þessar Egypsku frásagnir eru frá 3000 árum fyrir Krist.

Hvorki Jesús né Hórus voru trúarbragðahöfundar.

Mystery religion

"Since recognition of Horus as the son of Osiris was only in existence after Osiris's death, and because Horus, in an earlier guise, was the husband of Isis, in later traditions, it came to be said that Horus was the resurrected form of Osiris.[citation needed] Likewise, as the form of Horus before his death and resurrection, Osiris, who had already become considered a form of creator when belief about Osiris assimilated that about Ptah-Seker, also became considered to be the only creator, since Horus had gained these aspects of Ra."

En Snorri, ertu nokkuð með það á hreinu, hvaða dag og ár Jesús neytti kvöldmáltíðarinnar og hvaða dag og ár hann var krossfestur? Sbr. Calendar for year 29 (Israel)

Sigurður Rósant, 28.2.2008 kl. 19:25

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góð prédikun, þrátt fyrir mögulega staðreyndarvillu um líkklæðin. Ég veit reyndar ekki hversu traustar þessar kolefnistrefjarannsóknir eru.

Annað í ræðu Snorra get ég tekið undir. Málið snýst um að fylgja Kristi og halda áfram með Kristi. Í því er lífshamingjan og langur aldur fólginn.

Theódór Norðkvist, 28.2.2008 kl. 19:35

8 Smámynd: Árni Matthíasson

Ég býst nú ekki við því að Snorri þurfi mína hjálp eða annarra til að styðjast við í trú sinni, en vegna orða um samtímaheimildir sjónarvotta þá þekki ég engar slíkar en Gaius Cornelius Tacitus (56 eKr. – 117 eKr.) segir frá því í annálum sínum að Kristur hafi verið drepinn af Pontíusi Pílatus á dögum Tíberíusar, líklegast á árunum 26-36 eKr. Gætum að því að Tacitus skrifar frásögn sína aðeins nokkrum áratugum frá láti Krists.

Lucian frá Samosata, sem var uppi nokkru síðar, 125-180, segir frá kristinni trú og nefnir þá að upphafsmaður hennar hafi verið krossfestur vegna kenninga sinna svo það hefur verið nokkuð almenn vitneskja svo snemma.

Að þessu sögðu þá skil ég eiginlega ekki hvers vegna menn eru að eltast við að sanna eða afsanna eitthvað sem tengist trú - felur trú ekki í sér vissu sem skeytir ekki um veraldlegar sannanir? Stendur ekki einhversstaðar: "Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó."

Árni Matthíasson , 28.2.2008 kl. 21:31

9 Smámynd: Linda

Sæll Snorri, það er margur hér sem er tja skulum segja ósammála þessari færslu þinni, enda áttir þú væntanlega ekki von á öðru.  Hvað sem því líður, þá langar mig að spyrja þig, hvort að þér þykir það réttlætanlega að sem trúum á Jesú Krist skulum halda upp á upprisu hans að hætti forna Goða, Esther hefur ekkert með upprisu Krists að gera, ég skil vel hvað er á bak við þessa bakþanka mína og ég tel þá vera réttlætanlegir i samhengi þess sem sagan og kirkjan hefur lagt til í þessu öllu saman, það hinsvegar gefur augaleið, að við þurfum að leggja niður þessa andkristnu hefð og taka upp "passover" að hætti Gyðinga því það eru jú hin raunverulega hátíð og á þeim ´tíma var Jesú Krossfestur og reis upp frá dauðum. 

Ekki misskilja mig ég er ekki að tala gegn þessari hátíð, því hún er yndisleg, en væri ekki réttara að hafa hana í samhengi við Biblíuna og "Passover" .

Með vinsemd og ég tek undir með þér Dýrð sé Guði hann er upprisinn.

Linda.

Linda, 28.2.2008 kl. 22:08

10 Smámynd: Snorri Óskarsson

Satt er það að menn hafa aldursgreint klæðið með C14 og fengið árin 1260 - 1390. En það er ekki lokasvarið og það er ekki eina niðurstaðan úr öllum rannsóknunum.

Það á eftir að svara því og útskýra hvernig menn gátu greint frá líkklæðunum um 900 og málað af því mynd ef það var ekki til þá?

Hvernig á að koma því heim og saman að sveitadúkurinn á Spáni hefur samfellda sögu frá 1.öld og sagður hafa verið varðveittur fyrst hjá Pétri postula, skuli hafa líkamsvessa og blóð úr sama manni og líkklæðin í Tórinó sem "urðu til" 1300 árum síðar, skv. C14?

Hvaða tækni var notuð við að búa til myndina af krossfesta manninum? Myndin er "hologram" þ.e. í þrívídd og hægt að lesa hana með  VP8-analyser, en hann er notaður til að finna hæð fjalla og dýpt dala á stjörnum sólkerfisins.

Hvaða tækni var til um 1300 til að búa til negatífa mynd af krossfestum manni sem var negldur í gegnum úlnlið en ekki lófa eins og allar aðrar miðaldamyndir sýna?

Það eru svo miklu fleirri atriði að koma í ljós varðandi líkklæðin tvö sem benda öll til þess sama að þau eru ekta og ósvikin. C 14 er að mæla eitthvað annað.

kær kveðja

Snorri

Snorri Óskarsson, 28.2.2008 kl. 23:56

11 Smámynd: Snorri Óskarsson

Hjalti Rúnar.

Að dómgreind Lúkasar hafi verið brengluð er mér ekki ljóst. Hvaða heimildir hefurðu um það?

Að fæðingarsagan skuli vera véfengjanleg er mér ekki ljóst því María hefur hæglega getað verið heimldin þar sem hún fékk vitjun Gabríels og hún ein var vitni að því. Hverjum öðrum er betur treystandi?

Frásagnir Guðspjallanna opinbera allar það sama að Guð greip inní mannkynssöguna samkvæmt ritningunum.

Og samkævmt Ritningunum mun Jesús Kristur koma aftur. Það er náttúrulega ekkert að "marka" þessa spádóma fyrr en þeir rætast!

Gangi þér vel að lesa guðfræðina Hjalti Rúnar en láttu ekki fræðimenn rugla þekkingu þína. Því það voru miklir fræðimenn með doktorsgráðu í guðfræði sem fundu það út að Sódómu og Gómorru hafi verið eytt vegna þess að þær voru ekki gestrisnar! Menn komast greinilega að því sem þeir vilja.

kær kveðja

Snorri

Snorri Óskarsson, 29.2.2008 kl. 00:10

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það á eftir að svara því og útskýra hvernig menn gátu greint frá líkklæðunum um 900 og málað af því mynd ef það var ekki til þá?

Nei, það þarf ekki að svara því að því að menn greindu ekki frá því og máluðu ekki mynd af því.

Hvernig á að koma því heim og saman að sveitadúkurinn á Spáni hefur samfellda sögu frá 1.öld og sagður hafa verið varðveittur fyrst hjá Pétri postula, skuli hafa líkamsvessa og blóð úr sama manni og líkklæðin í Tórinó sem "urðu til" 1300 árum síðar, skv. C14?

Er sagt að hann hafi verið varðveittur fyrst hjá Pétri postula? Hvernig á maður að útskýra það að fólk segi það?

Svitaklúturinn getur ekki haft sama "líkamsvessa og blóð" og á Tórínólíkklæðinu, af því að það er ekkert um blóð á líkklæðinu.

Hvaða tækni var notuð við að búa til myndina af krossfesta manninum? Myndin er "hologram" þ.e. í þrívídd og hægt að lesa hana með  VP8-analyser, en hann er notaður til að finna hæð fjalla og dýpt dala á stjörnum sólkerfisins.

Hvaða tækni var til um 1300 til að búa til negatífa mynd af krossfestum manni sem var negldur í gegnum úlnlið en ekki lófa eins og allar aðrar miðaldamyndir sýna?

Hugsanlega sama tækni og var notuð til þess að búa til þessa mynd.

Það eru svo miklu fleirri atriði að koma í ljós varðandi líkklæðin tvö sem benda öll til þess sama að þau eru ekta og ósvikin. C 14 er að mæla eitthvað annað.

Snorri, hvers vegna heldurðu að C14 mælingarnar hafi einmitt komið með sama tíma og við fréttum fyrst af líkklæðinu (og þær fréttir eru einmitt þær að listamaður hafi búið það til)? Tilviljun?

Að dómgreind Lúkasar hafi verið brengluð er mér ekki ljóst. Hvaða heimildir hefurðu um það?

Önnur heimildin kallast Lúkasarguðspjall. Að Rómarveldi hafi skipað þegnum sínum að fara til heimkynna langa-langa-...(endurtekið ~30 sinnum)...-langa-afa sinna er út í hött.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 29.2.2008 kl. 03:13

13 Smámynd: Snorri Óskarsson

Hjalti Rúnar

Við hliðina á síðari athugasemd þinni er mynd tekin frá ungversku handriti frá 1190 - 1195. Myndin er greinilega í samræmi við líkklæðin í Torinó. Alla vega var þessi ungverksa mynd til og þá einnig myndin á líkklæðunum til á undan líkklæðunum sjálfum. Það auðvitað sannar að Jesús Kristur var á undan samtíma sínum.

Þú sýnir með tilvísun þinni í ákveðna mynd. Hvernig var hún búin til? Máluð? Teiknuð?

Þá var hún ekki búin til á sama hátt og myndin á líkklæðun því sú tækni er enn ekki til.

Hjalti Rúnar, af hverju var það út í hött af Rómaveldi að skipa þegnum sínum að fara um langan veg til að vera skráður? Þú veist að málin breytast ekki þó þú svarir bara með "Nei-i"!

Líkklæðin voru þekkt á dögum Ítalans Sekundó Pía (1890) þegar hann tók ljósmynd af klæðinu en þá var C14 aðferðin ekki uppfundin.

Andlitsmyndin á líkklæðunum er greinilega nauðalík kristsmyndinni í Hagia-Sofía í Istanbúl og sú bygging var reist fyrir daga Islams. Þá voru líkklæðin þekkt enda fyrirmynd af þessari andlitsmynd af Kristi.

Ég fékk nefnilega DVD disk frá Grizzly Adams sem fjallar um rannsóknir á þessum klæðum og diskurinn heitir The Fabric og time. Skoðaðu hann, þú hefur efni á að fá þér diskinn.

kær kveðja

Snorri

Snorri Óskarsson, 29.2.2008 kl. 18:00

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Á þessari mynd sé ég myndir af því þegar Jesús var settur í líklæði. Ég veit ekki hvers vegna þú segir að þetta sé mynd af líkklæðini í Tórínó. Ég get vel fallist á það að myndin á líkklæðinu sé eins og aðrar myndir af honum frá þessum tíma.

Myndin var búin til með því að setja lit á lágskurðamynd og nudda klút við hana.

Þá var hún ekki búin til á sama hátt og myndin á líkklæðun því sú tækni er enn ekki til.

Hvers vegna segirðu að þessi aðferð hafi ekki verið notuð?

Hjalti Rúnar, af hverju var það út í hött af Rómaveldi að skipa þegnum sínum að fara um langan veg til að vera skráður? Þú veist að málin breytast ekki þó þú svarir bara með "Nei-i"!

Af því að Rómverjar höfðu ekki áhuga á ættfræði, heldur á því hve margir lifðu í ríkinu þeirra. Geturðu ímyndað þér að eitthvað ríki skipaði fólkinu sínu að fara þangað þar sem forfeður þeirra lifðu fyrir 1000 árum til þess að telja þau?

Líkklæðin voru þekkt á dögum Ítalans Sekundó Pía (1890) þegar hann tók ljósmynd af klæðinu en þá var C14 aðferðin ekki uppfundin.

Hvaða máli skiptir þetta?

Andlitsmyndin á líkklæðunum er greinilega nauðalík kristsmyndinni í Hagia-Sofía í Istanbúl og sú bygging var reist fyrir daga Islams. Þá voru líkklæðin þekkt enda fyrirmynd af þessari andlitsmynd af Kristi.

Þetta er virkilega órökrétt. Þér finnst myndin í Ægisif vera lík myndinni á líkklæðunum og telur þetta sýna fram á að líkklæðið hafi verið þekkt þegar myndin í Ægisif var gerð.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 2.3.2008 kl. 00:32

15 Smámynd: Snorri Óskarsson

Snorri, hvers vegna heldurðu að C14 mælingarnar hafi einmitt komið með sama tíma og við fréttum fyrst af líkklæðinu (og þær fréttir eru einmitt þær að listamaður hafi búið það til)? Tilviljun?

Líkklæðin voru þekkt á dögum Ítalans Sekundó Pía (1890) þegar hann tók ljósmynd af klæðinu en þá var C14 aðferðin ekki uppfundin.

Hvaða máli skiptir þetta?

Eins og þú sérð hér að framanverðu þá var fullyrðing þín röng um tímann þegar líkklæðin birtust.

Það er vitað um sögu líkklæðanna frá því um 600 og hægt að rekja söguna. Max Frei, sérfræðingur í frjókornum sannaði svo um munaði hvar þessi klæði höfðu verið og það sást á frjókornum plantna sem vaxa eingöngu á ákveðnum svæðum t.d. Jerúsalem, Antíokkíu í Sýrlandi, Edessa í Tyrklandi, Istanbul, Frakkland og Ítalíu.

Þetta kemur fram í heimildarmynd sem ég á og hefur verið sýnd í Bíó hér á Íslandi. Ég get lánað þér myndina.

Og þú veist að dauði Jesú Krists er ekki deiluefnið mikla heldur upprisa hans og hún er "sönnuð" með frásögn sjónarvottanna. Frásögnina er að finna Nýja-Testamentinu. Einnig er frásögnin studd þessu umrædda líkklæði sem var til löngu fyrir 1290 - 1360 e.Kr. og sýnir mynd sem var innbrennd í efnið en ekki þrykkt né máluð.

Að segja það "virkilega órökrétt" að myndin í Ægissif sanni tilvist klæðisins þá er sagan sú að klæðin voru ekki á hvers manns vitorði fram að því enda voru myndir teiknaðar á kristi fram að því afar fjölbreytilegar eins og helgimyndirnar sjálfar  fyrir árið 500 e.kr. bera með sér.

Það er meira að skoða og það efni ber allt að sama brunni. Líkklæðin eru ekta, frá því á fyrstu öld, sýna krossfesstan og svipubarinn mann með bæði naglasár og spjótsstungu. Þessi mynd á klæðinu var gerð með "óþekktri myndtækni" og er í þrívídd (hologram). En C14 aðferðin segir efnið yngra og þess vegna er eðlilegt að menn viðurkenni að C14 aðferðin hafi mælt annað en aldur efnisins - gerlar í efninu hafa verið nefndir sem truflunarvaldur og jafnframt að eftir brunann 1534 hafi nunnurnar ofið viðbót á klæðið til að afmá brunaskemmdir. En þetta eru enn aðeins tilnefndar skýringar.

kær kveðjs

Snorri

Snorri Óskarsson, 2.3.2008 kl. 11:55

16 Smámynd: Sigurður Rósant

Þessa umræðu má líka nálgast frá öðru sjónarhorni.

Mögulegt er að Jesús hafi lifað af krossfestinguna, náð sér nokkuð fljótlega og gengið um, neytt steikts fisks [og hunangsköku skv. eldri þýðingum] með lærisveinunum, en farið síðan huldu höfði og flutt í klaustrið í Kúmran og dvalið þar til dauðadags með Essenum.

Lúk 24:36-43 "Nú voru þeir að tala um þetta, og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: "Friður sé með yður!" En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda. Hann sagði við þá: "Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar? Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef." Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. Enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og voru furðu lostnir. Þá sagði hann við þá: "Hafið þér hér nokkuð til matar?" Þeir fengu honum stykki af steiktum fiski, og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim."

Ekkert yfirnáttúrulegt er við ofangreinda frásögn enda mörg dæmi þess að menn hafi lifað af svona krossfestingar, m.a. hjá sagnritaranum Josephus.

Það vekur hins vegar spurningu hjá mér hvernig túlka beri 50. - 53 vers "Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá. En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði."

Öllum er kennt að Jesús hafi stigið upp til föður síns (upp til himins) 40 dögum seinna. En hér stígur hann strax fyrsta daginn upp til himins.

Sigurður Rósant, 3.3.2008 kl. 19:28

17 Smámynd: Snorri Óskarsson

Sigurður

Menn geta svo sem stuðst við sögur um að menn hafi lifað af krossfestingu en varla eftir að spjóti hafi verið stungið í gegn maga og inní hjarta. En það er auðvitað veruleg ógn við skynsemi, vísindi og allt sem við þekkjum að maður, krossfestur, með spjótssár og búinn að liggja í gröf yfir helgi skuli eiga fylgismenn í milljónatali. Annað hvort er þetta vitavonlaus trú og algerlega út í hött eða eina trúin, sönn og studd vitnisburðum guðspjallanna sem og þessara merkilegu fornmuna, líkklæðinu í Túrin og sveitadúknum á Spáni.

Jesús er sagður hafa farið strax með blóð sitt inn í helgidóminn á hæðum til að friðþægja fyrir okkur. Hann sté niður í ríki dauðans og leysti sálir sem dóu í trú og eftirvæntingu um þessa sælu von að í fyllingu tímans myndi Guð leysa þá undan valdi dauðans. Þess vegna hefur dauðinn í kristinni trú ekki varanleg og eilífð tök á okkur heldur aðeins tímabundin. Valdi dauðans lýkur við endurkomu JESÚ á skyjum himins í mætti veldi og mikilli dýrð.

Svo fór hann í líkamanum til himins og dvelur þar sem frelsarinn í mannslíkamanum. Við munum eins erfa eilífðina, líkamlega.

Guð blessi þig.

kveðja

Snorri 

Snorri Óskarsson, 3.3.2008 kl. 22:47

18 Smámynd: Sigurður Rósant

Snorri - "Menn geta svo sem stuðst við sögur um að menn hafi lifað af krossfestingu en varla eftir að spjóti hafi verið stungið í gegn maga og inní hjarta."

Hér hefur þú bætt við tveimur ýkjum, sem finnast ekki í Matteusi, Markúsi, Lúkasi né Jóhannsesi.

Jóh. 20:34 "En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn."

Þetta er eina frásögnin sem ég hef fundið um meinta stungu í síðu Jesú Krists. Ekkert  er fullyrt um dýpt stungunnar, né nákvæmlega hvar var stungið. Gæti þess vegna hafa verið stunga inn á milli rifja og lent í öðru lunga hans.

Trúaðir falla oft í þá gryfju að hagræða frásögnum á þann veg sem þeir ímynda sér að hljóti að vera satt. En svo kemur annað í ljós þegar betur er rýnt og skoðað.

Njótið komandi hátiðar.

Sigurður Rósant, 5.3.2008 kl. 18:56

19 Smámynd: Snorri Óskarsson

Þeim sem rituðu um krossfestinguna ber þó saman um sára og illa meðferð á hinum krossfesta. Ekki segja allir nákvæmlega eins frá atburðunum enda ekki um fjölföldun að ræða og hver api upp eftir öðrum heldur að það sem hverjum þótti eðlilegast að taka fram var skráð.

Hvers vegna voru lærisveinarnir forviða og vantrúaðir á upprisufréttinni ef hann var ekki alveg látinn eftir krossfestinguna?
Það sem menn sjá í dag að með vísindalegum aðferðum og hætti eru klæðin tvö borin saman og staðfest að þau voru notuð við sama tækifæri og sama einstakling.  Annað er  vitað með glöggri vissu að er frá fyrstu öld, sveitadúkuninn á Spáni en hitt mælist aðeins frá 1290 - 1360  skv. C14.

Alltaf stöndum við frammi fyrir því að þurfa að trúa þó svo að vissan og þekkingin mælist upp að 99% þá þarf 1% trú til að viðurkenna að Jesús Kristur er krossfestur, dáinn, grafinn og reis upp á þriðja degi. Hann steig upp til hæða og situr til hægri handar Guði almáttugum og mun koma þaðan til að dæma lifendur og dauða! Tryggjum það að hann dæmi okkur inn í sitt ríki um alla eilífð!

kær kveðja

Snorri 

Snorri Óskarsson, 5.3.2008 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Snorri í Betel

Höfundur

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson

Er lífeyrisþegi og notar tímann til að fylgjast með Ritningunum rætast! Var safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri 2004 - 2018 og kennari í Brekkusóla frá 2001 til 2013.

Hef stundað kennslu frá 1973 á Vopnafirði. Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja frá 1975, Barnaskóla Vestmannaeyja, Iðnskóla- Vélskóla og Stýrimannaskóla Vestmannaeyja. Gerðist kennari við Framhaldsskóla Vestmannaeyja við stofnun hans og fram til 1986. Hóf aftur kennslu við Hamarsskóla Vestmannaeyja uns ég flutti til Akureyrar sumarið 2001.

Hef veitt Hvítasunnukirkjunni Betel í Vestmannaeyjum forstöðu fram til miðs árs 2001 og verið forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri frá 2004 - 2018. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_2207
  • IMG_1548
  • friðrik
  • sveitadúkurinn
  • papakrossinn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband