Morgunblaðið gerði þessari spurningu skil í fimmtudagsblaðinu 22. sept. 2022. Umfjöllunin var um kafla í bók sr. Þórhalls Heimissonar, prests í Svíþjóð, Allt sem þú vilt vita um Biblíuna!
Ég las greinina og í kynningu segir: ...leiðir Þórhallur Heimisson lesendur í gegnum hina mörgu torræðu kafla Biblíunnar.
Í greininni fullyrðir höfundur bókarinnar að til dæmis minnist Jesús Kristur aldrei á samkynhneigð eða samkynhneigða. Hann talar reyndar aldrei um kynhneigð manna til eða frá. Honum var slétt sama hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir eða eitthvað allt annað.
Þessi framsetning klerksins bendir til að höfundur skauti fram hjá mjög merkilegum þáttum meistarans frá Nasaret og gerir um leið bókina ónýta til ætlunarverksins að leiða lesendur í gegnum hina mörgu torræðu kafla Biblíunnar.
Við erum með þrjú guðspjöll sem rituð eru af sjónarvottum og lærisveinum Jesú frá Nasaret og okkur er hollast að treysta frásögn þeirra.
Kenndi Jesús aldrei um kynhneigð manna?
Í guðspjalli Mattheusar er að finna kennslu Jesú um það sem býr innra með manninum. Mattheus notar hálfan 15. kafla um efnið. Í versi 19 segir og tekið orðrétt frá munni Jesú Krists: Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi. Þetta er það sem saurgar manninn.
Flestir þekkja til orðanna hórdómur og saurlifnaður og tengja þau við kynhegðun manna.
Kaflinn hjá Mattheusi er því býsna ábyggileg heimild um kennslu Jesú og fjallar talsvert um kynlíf og kynhneigð manna, þvert á fullyrðingar sr. Þórhalls.
Hér sjá lesendur að nýyrðið samkynhneigð kemur hvergi fyrir og þarf engan að undra.
Guðspjöllin voru þegar komin fram um 180 e.Kr. og strax viðurkennd sem ritningar gefnar af Guði, samkvæmt því sem Ireneus af Lyon fullyrti.
Hvaða orð voru notuð í grísku? Fyrir hórdóm var notað moikea. Þetta orð kemur einnig fram hjá Jóhannesi guðspjallamanni þegar hann greinir frá bersyndugu konunni sem átti að grýta fyrir hórdóm eða moikea (Jóh. 8:3). Fyrir saurlifnað notar gríski textinn orðið porneia. Þetta orð má finna víða í Nýja testamentinu í tengslum við kynlíf og skurðgoðadýrkun, svo sem í Postulasögunni 15:21. Enn fremur má sjá notkun Páls postula á orðinu porneia í Rómverjabréfinu 1:29. Þýðandi Nt. frá 1540 notaði orðið frillulífi (sjá Nt. Odds) og í Biblíunni 2007 er sagt saurlífi.
Gríska orðið porneia var notað yfir kynlíf við dýr, börn, samkynja manneskjur og skurðgoð. Þess vegna hefur gríska orðið víðtækari merkingu en almennt er haft sem þýðing þessa orðs á íslensku. Við þýðum pornea gjarnan sem klám!
Mér þykir guðfræðingurinn fara heldur illa að ráði sínu að fullyrða að Jesús hafi aldrei fjallað um samkynhneigð þegar orðið porneia var notað um þennan lífsmáta. Jesús notaði orðið skv. Mattheusi.
Fyrir mér kemur Þórhallur út sem lélegur fræðimaður og í stað þess að gerast leiðsögumaður villir hann lesendur sína um lendur Biblíunnar. Bókin og fræðimaðurinn fá því falleinkunn. Reynist þetta dæmi um lélega fræðimennsku höfundar má væntanlega vantreysta mörgu öðru sem hann leggur fram fyrir lesandann. Það er skaði hverjum rithöfundi að standast ekki skoðun þegar verk er gefið út.
Því má einnig bæta við að Jesús talar í Opinberunarbók Jóhannesar um kynhegðun, kynhneigð og afleiðingar þessa lifnaðar. Þar kemur fram í Op. 21:8 (og Op. 22:15) hver örlög verða fyrir skurðgoðadýrkendur og frillulífismenn sem ekki gera iðrun. Það er hollt fyrir guðfræðinginn að kynna sér efni þeirrar bókar áður en lengra er haldið með útgáfu á Öllu sem þú vilt vita um Biblíuna.