Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Af hverju ætti að finnast líf?

Það er mikið á sig lagt í að leita að lífi. Frá því ég man eftir mér var þessi von í blöðum og bókum fyrir okkur sem börn og unglingar.

Við strákarnir lásum Tom Swift og Willa ævintýramann ásamt geimverubókum og bókum um tímavél, ferðir fram og aftur í tímann. Þessi ævintýraheimur heillaði og sögurnar lásum við upp til agna. Sum blaðanna á ég enn.

Í þá daga fékk ævintýrir að njóta sín og draumaveröldin að ferðast um víðáttur himingeimsins og hitta hið óvænta fyllti ævintýraheim unglinganna. En nú er öldin önnur.

Unglingarnir sem lásu ævintýrin eru í dag vísindamenn og ráða yfir ógrynni fjár til að rannsaka hvort ævintýrið kynni að reynast satt. Þeir leita grimmt að lífi í öllum krókum og kimum og athuga hvort einhversstaðar hafi myndun lífs hafist.

Tunglið sagði nei. Það er þó vitað að líf var á Tunglinu. Það var í þau skipti þegar geimfarar Bandaríkjanna stigu fæti sínum á þar en svo hurfu þeir aftur til jarðar.

Mars segir nei! Ekki örlar á lífi þar eða að eitthvert líf hafi myndast af sjálfu sér.

Hnettirnir Merkúr og Venus segja nei! það þarf ekki að leita þar lengur. Ekki hafa risarnir Júpiter, Sartúrnus, Neptúnus og Úranus verið jákvæðar plánetur lífinu en vonast er til að eitt af tunglum Júpiters gæti geymt einhverja lífsvon?

Nú liggur von draumamannanna í 20 ljósára fjarlægð og vissan hvort líf sé þar að finna fáum við ekki fyrr en eftir 1,6 milljónir ára, ef við sendum þangað geimflaug sem á að ná aftur hingað til jarðar með sýnishorn frá hnöttunum.

En hvað veldur þessari miklu og öflugu þrá til að finna líf annarsstaðar? Jú, það er trúin um þróun.

Sú trú grundvallast á tveimur grunnþóttum 1. af því sem við sjáum og 2. af því að við höfnum Guði sem skapara alls. Undirliggjandi þáttur er því að sanna að enginn Guð kom að því að við erum til sem sköpun eða handarverk hans. Biblían er því bók sem vísindin taka ekki mark á.

Eina ástæðan fyrir þróunarkenningunni er því Guðsafneitun og það óþægilega, hvaðan kom þá lífið?

Fram að þessu hefur leit vísindanna gert það að verkum að menn hafa sannað að eitthvað mikið meira en tilviljun hefur komið að tilveru okkar hér á jörð.

1. Allt á upphaf!  Hvort sem við köllum upphafið ,,Miklahvell" eða að ,,Guð talaði"!

Hiklaust tala menn um aldur himingeimsins, hnatta, jarðar og upphaf lífs. Þetta segir Biblían líka.

2. Öllu er haldið í samhengi. Lífið á jörðinni hefur aflgjafa, sólina, sem er fínstillt fyrir viðhaldi og framleiðslu orku fyrir frumlífverur eins og ljóstillífun plantna og þörunga sem mynda fæðu fyrir lífverur er nærast á þeim. 

Sólin gefur hárrétta geislun og jörðin er í hárréttri fjarlægð frá henni til að líf haldist við.

Tunglið er í nákvæmlega réttri fjarlægð til að viðhalda fljóði og fjöru ásamt því að mæla tíma og tíðir og snúning jarðar.

3. Allt sem lifir hverfur aftur til jarðarinnar. Sama hvaða lífveru við nefnum þá deyr hún og verður endurnýtt í náttúru jarðarinnar, enda komin þaðan nema....!

Nema einhverjar stórkostlegar hamfarir eigi sér stað. Ef t.d. flóð hvolfist yfir lífssvæði og hylji það miklu fargi og djúpu jarðlagi. Þá geta lífverurnar legið þar og steinrunnið eins og dæmin sanna.

Við eigum dæmi frá Snorrasvæðinu í Norðursjó þar sem Norðmenn dæla olíunni úr lindunum djúpt undir yfirborði hafsbotnsins. Þar á 2600metra dýpi fundu þeir í borkjörnum við olíuleitina beinaleifar risaeðla. Þær höfðu áður gengið á yfriborði jarðar en grófust svona djúpt á augnabliki, einhverntíma í árdaga. Jarðlögin djúpt í jörðu þurfa því ekki endilega að vera eldri en þau sem blasa við okkar augum. En þau eru allavega jafn gömul jörðinni og eldri en risaeðluleifarnar.

Undrið er það að hér skuli finnast líf. Við höfum ágætis heimildir fyrir upphafi þess, sögu og tilgangi. En þar kemur líka að okkar vanda hvort við trúum þeim upplýsingum. Í þeim upplýsingum er því haldið fram að eigandi sé að lífinu og tilverunni. Eigandi að þér og mér og við erum gerð samkvæmt fyrirmynd.

þær upplýsingar um fyrirmyndina sem við erum mótuð eftir og tilganginn sem er með lífinu gerir okkur ábyrg fyrir okkur, hæfileikum okkar og afkomendum. Ég má t.d. ekki fara með afkomendur mína eftir eigin hugdettu hvort sem þeir eru mér þægilegir eða óþægilegir. Ég má ekki eyða þeim t.d. ekki misnota þá, ekki sniðganga þá og þegar ég dey þá eiga afkomendur mínir að erfa mig. Eignir mínar fara í þeirra hendur!

Eins er það með mig. Ég þarf að standa skapara mínum skil á orðum mínum og athöfnum. Stundum er eins og eitthvað illt ráði yfir okkur og menn eyða hvoru öðrum í tugþúsundatali. Við teljum okkur hafa rétt til að gera það sem okkur best þykir jafnvel svo að við framleiðum kjarnavopn í þeim mæli að við getum eytt öllu lífi á jörðunni 7 sinnum! Flokkast þetta ekki sem réttur til sjálfsvarna?

Ef við gerum það, eyðum lífinu, hvar er þá annarsstaðar líf að finna?
Biblían segir: ;;Allir vér sem með óhjúpuðu andliti sjáum endurskinið af dýrð Drottins.." Þessi náttúra er því staðfesting á að höfundur hennar er dýrðlegur snillingur og eigandi hennar á skilið allan heiður og vegsemd sem nokkur getur gefið. Hún segir líka: ,,Í honum (Jesú Kristi) var líf og lífið er ljós mannanna" Hann er upphaf lífsins og tilverunnar og allt á tilveru sína í honum. Dag einn þarftu að standa frammi fyrir dómstóli hans og þá verður þú spurður út í það allt sem þú hefur aðhafst líkamanum?

Þegar mönnum er stefnt fyrir dómstóla þá er nauðsyn að fá sér lögmann. Ekki standa einn eins og glópur.

Ég mæli með einum lögfræðingi. Ég kynntist honum í gegnum orð Jóhannesar Guðspjallamanns og hann kynnir hann m.a. svona: ,,Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga; og jafnvel þótt eihver syndgi þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist hinn réttláta og hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir heldur líka fyrir syndir alls heimsins." (1.Jóh.2: 1-2)

Fáðu hann sem þinn lögfræðing eða árnaðarmann!

Snorri í Betel


mbl.is Fundu sólkerfi með 7 reikistjörnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umburðarleysi, fordómar?

Er verið að taka til?

Fulltrúar Samtaka 78 fá að koma í skólana til að kenna umburðarlyndi. Borg og bær borga. Gídeon menn fá ekki allsstaðar að koma með Nýja Testamentið í skólana þó svo að sú bók hafi verið notuð öldum saman til að kenna umburðarlyndi, kærleika og einnig þann alvarleika sem segir: ,,Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Jesú Krists til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt".(2.Kor.5:10)

Í bók Gideonmanna er haft eftir höfundi trúarinnar: ,,Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim eigi, því að slíkra er Guðsríki!" En samt er börnunum bannað af yfirvöldum skólamála að gefa börnunum þetta veganesti!

Er bann skólanna gagnvart Gideon vegna haturs, fordóma eða skorts á umburðarlyndi?

Ef við leyfðum þessum boðskap hins Nýja Testamenntis að móta huga barnanna þá sparar það okkur heila stöfnun og nýja löggjöf. Sá sparnaður hleypur á hundruðum milljóna!

Þér er ætlað að elska útlendinginn og bjóða hann velkominn! Á hvaða forsendum?

Vita menn að ,,bannaða bókin" sem Gideonsmenn vilja gefa börnunum segir: ,,Þú skalt ekki halla rétti útlends manns." (5.Mós. 24:17) Enn fremur er sagt: ,,Ef útlendur maður býr í landi yðar þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð." (5.Mós. 19: 33)!En þessi boðskapur má ekki berast börnunum í gegnum bók Gideon manna!

Þessum málum er nefnilega svo oft gerð léleg skil að mig undrar, hjá hámenntaðri þjóð eins og sú Ísland byggir. Þó svo að útlendingurinn komi hér til að vinna þá mætir hann ekki endilega því viðhorfi að hann fái laun samkvæmt lögum landsins. Fréttir herma að þeir eru hlunnfarnir og kúgaðir á margan hátt! Ég spyr, höfum við efni á að útiloka Gideon menn frá æsku landsins og þannig fjarlægja boðskapinn sem sáir umburðarlyndi og vilvilja gagnvart útlendingum, samkynhneigðum, gagnkynhneigðum, réttlátum og syndurum?

Það er hið mesta kærleiksverk sem nokkur maður fær að taka þátt í að snúa syndara frá villu síns vegar og beina honum inn á braut réttlætis og heilla. Það starf hefur ávallt betrumbætt land, þjóð og menningu!

Mér sýnist vá vera fyrir dyrum hjá þjóðinni okkar. Sú vá er fólgin í því að þeir sem eru löggjafar í landinu hafa verið, sumir, dauðhreinsaðir af Orði Guðs og bera því ekki í sér heilbrigðan mælikvarða á það sem flokkast skuli ,fordómar og/eða hatursorðræða"

Enginn sannkristinn maður ber fram málefni sem hatar! En stöðuglega ber hinn kristni fram mál og kenningu sem er: ,,nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks"! (2.Tím. 3:16)

Endrreisum hin kristnu og Biblíulegu viðhorf!

Snorri í Betel


mbl.is Ný lög og stofnun í skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð Heilsan er gullnáma!

Menn eiga það til að taka áhættu. Áhættusækni er hættuleg fyrir alla og sérstaklega unglinga. Rannsóknir á hegðun unglinga hefur æ ofaní æ bent á þennan hættulega þátt unglingsárana að áhættan varð þeim að meini.

Tóbaksnotkun, drykkja og eiturlyfaneysla hefst yfirleitt á unglingsárum og um miðjan aldur er neyslan orðin manninum til baga svo að til meðferðarúrræða þarf gjarnan að grípa til að ná að nýju tökum á vímulausri tilveru. Þá er viðurkennt að ástandið er orðið sjúklegt og yfirvöld heilbrigðismála eru þá kölluð til að borga fyrir batameðferð viðkomandi. Við erum með allstórar stofnanir sem eru að vinna við þennan vanda.

En það byrjar enginn neyslu þessara efna sem sjúklingur en efnin gera menn sjúka. Viðurkennt er að vínneyslan ,,skapar" þunglyndi. Hún sljóvgar einnig siðgæði og brenglar dómgreind.

Þekkt eru þau dæmi þegar menn setjast undir stýri undir áhrifum og sitja uppi með afleiðingar þess alla ævina. Ofurlítil áhætta kostaði ævarandi ör og sektarkennd vegna ölvunaraksturs sem endaði skelfilega.

Það hlýtur að vekja athygli allra sem setja okkur lög og reglur þegar hver viðvörunin eftir aðra birtist í fjölmiðlum um skaðsemi og áhættuna sem aukinn aðgangur að áfengi hefur í för með sér. Samfélagið verður fyrir tjóni og vandinn vex í nafni viðskiptafrelsis. Frelsinu fylgir ábyrgð!

Í upphafi þessa mánaðar steig fram fulltrúi Landlæknisembættisins og krafði stjórnvöld um aðgerðir vegna aukins smits kynsjúkdóma eins og sárasóttar og HIV. Samfélagið er sett í mikla áhættu vegna sjúkdómanna og menn vita að þeir geta stungið sér niður hvar sem er vegna hegðunar manna og áhættusækni.

Í gegnum aldirnar hafa menn beitt siðferðiskröfum sem stjórntæki á samfélagshegðun. Það er ekki öll hegðun góð þó svo að ,,allir vilji frelsi" til athafna. Menn hafa verið að gefa eftir og hunsa góð gildi sem héldu samfélagi manna heilbrigðu. Frelsið í kynlífi er nefnilega samfélaginu hættulegt þó svo að þau flokkist sem mannréttindi.

Þessi nýja áfengislöggjöf hefur alveg sama eðli og sum mannréttindi. Löggjöfin hljómar sem frelsisskrá en opnar hinar dyrnar um leið að samfélagið verður veikara og sjúklegt ástand dreifist yfir á heimilin.

Við þurfum hvorki aukið frelsi til drykkju né kynlífs heldur miklu fremur að stíga nokkur skref aftur inní gömlu gildin sem kostuðu ekki menn heilsuna og studdu ungmenni til samfélagslegrar ábyrgðar á eigin heilsu og lífi. Það ætti að vera okkur ljóst að góð heilsa þjóðar er gullnáma samfélagsins

Ég skora á stjórnvöld að vísa frumvarpinu á dyr og Sjálfstæðismenn að taka til í frelsishugsjóninni. Það eykur ekki frelsi né mannréttindi að glíma við sjúkdóma og heilsutjón stóran hluta ævinnar!

Snorri í Betel


mbl.is Hvetja þingmenn til þess að fella frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópa að rísa upp?

Það er ástæða fyrir okkur að leggja við hlustir. Við erum Evrópuríki með sterk tengsl við Bandaríkin og sameiginlega varnarstefnu bæði við Evrópu og Bandaríkin í gegnum NATO. 

Ég hef verið fylgjandi varnarsamstarfinu og sérstaklega vegna samheldninnar milli þessara ríkja. Undanfarið hef ég ekki getað séð Rússa sem óvin okkar enda litlar ástæður til þess. Nú eru blikur á lofti og óvinir okkar virðast vera fyrir sunnan Tyrkland. Eins og Tyrkir hafa hagað sér þá eru þeir ekki með friðaráform í huga heldur erdurreisn Ottómanveldisins. Að vera með þeim í varnarbandalagi þar sem ,,árás á eitt ríki er árás á þau öll" sé ég ekki ganga upp fyrir okkur Íslendinga. Því finnst mér orð Trumps um að NATO sé búið að gegna sínu hlutverki eiga vel við heimsástandið í dag.

Ég tel Íslandi sé best borgið með því að gera sérstakan friðarsamning við Evrópuríkin ásamt Bandaríkjunum og segja okkur úr NATÓ því við getum ekki tekið þátt í að verja Tyrkland. Baráttan þar mun standa um hvert verður forysturíki í heimi múslima og ætla Tyrkir sér að endurreisa ,,Tyrkjaveldi" einni öld eftir að því var varpað fyrir róða.

Ég get ekki heldur séð að Evrópa sitji á friðarstóli með þátttöku í friðarráðstefnu hinna 70 ríkja í París. Að ætla sér að sneiða af Ísrael til að gera Araba sátta og friðmælast þannig, er aðför að eina lýðræðisríkinu fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ég hef komið til Ísraels í all nokkur skipti og hef fengið að ferðast um óáreittur um landið þvert og endilangt. Á leiðinni til Betlehem er vegabréfaskoðun af því að Ísraelarnir hafa virt tilraun Palestínumanna til að ráða yfir þeirra landssvæði. En þar blasir við stórt rautt skilti sem á er ritað að gyðingum er meinaður aðgangur að viðlagðri dauðarefsing ef þeir vogi sér inná yfirráðasvæði Palestínumanna; sama viðvörun er á leiðinni til Jeríkó. Samt streyma hundruðir Araba inní Ísrael daglega til að vinna sín daglegu störf. Það liggur ekki dauðarefsing við að þeir komi inní Ísrael!

Nú stígur Evrópa fram sem leiðandi álfa í friðarferli milli Ísraels og Palestínumanna. Allt bendir til þess að þvinguðum friði verði komið á. Þannig friði var komið á á milli Rússa og Finna á sínum tíma. Hefur sú leið hvorki skapað frið eða sátt.

Musterishæðin í Jerúsalem, einn helgasti staður gyðinga tilheyrir Austur Jerúsalem. Miðað við orðræðuna þá á Austur Jerúsalem að verða höfuðborg hins Palestínska ríkis. Þá verður Musterishæðinni lokað að viðlagðri dauðarefsingu yfir þeim sem ekki eru þangað velkomnir og það mun aðeins gilda um gyðingana. En er þessi friðarráðstefna í París ekki því andvana fædd og glapræði?

Ef má notast við hina helgu bók Biblíuna í þessu samhengi þá er þar að finna kröftuga lýsingu um þær þjóðir sem ,,skipta landinu" og ,,skipta Jerúsalem"! Ég get ekki orða bundist yfir því hve margar ,,kristnar þjóðir" fara þessa vegferð án þess að taka mark á þessum fornu spádómum. Sennilega má segja að viðvörun þessarar fornu bókar geri Evrópuþjóðir án afsökunar og vantrú þeirra á bókinni kemur niður á þeim sjálfum. En hveð með þig, lesandi góður? Verður þú án afsökunar?

Í þessum gömlu spádómum Biblíunnar kemur fram:,,Á þeim degi mun ég gjöra Jerúsalem að aflraunasteini fyrir allar þjóðir"(Sak.12:3) ,,Og Drottinn mun út fara og berjast við þessar þjóðir eins og þegar hann barðist forðum á orustudeginum. Fætur hans munu á þeim degi standa á Oíufjallinu sem er austanvert við Jerúsalem og Olíufjallið mun klofna um þvert frá austri til vesturs og þar mun verða geysivíður dalur..." Sak. 14: 3-5

Enn fremur hjá Jóel spámanni: "..vil ég saman safna öllum þjóðum og færa þær ofan í Jósafatsdal og ganga þar í dóm við þær vegna LÝÐS míns og arfleifðar minnar Ísraels af því að þeir hafa dreift henni meðal heiðingja og SKIPT SUNDUR landi mínu".Jóel 3:7

Að taka sér vald yfir Jerúsalem, skipta landinu og koma gyðingum illa er sakarefni sem Guð mun dæma. Þessar 70 þjóðir eru því að efna til óvináttu og fjandskapar við Guð almáttugan. Þess vegna er NATÓ búið að vera og við eigum að segja skilið við samtökin!

Ísland má ekki efna til meiri óvináttu við Guð umfram það sem komð er. Nú er mál að linni og snúa heldur við og hverfa til gömlu gildanna. Þeirra sem greina okkur frá því sem hann kallar ill, það er illt og það sem Guð segir gott og blessað það ER GOTT OG BLESSAÐ.

Upprisa Evrópu er því illu heilli til fjandskapar við Guð, spádóma hans og áætlun. Henni fær enginn breytt öðru vísi en að hrufla sig og verða leidd ofan í Jósafatsdal.

Jósafat þýðir ,,Guð Dæmir"! Af hverju ætli 70 þjóðir vilja fá yfir sig Dómsdag Guðs?

með nýjárskveðju

Snorri í Betel.


mbl.is Samheldni Evrópubúa besta svarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgin sem slapp?

IMG_3929Nimrod er sögulegt nafn. Sá fyrsti sem bar nafnið stofnaði Babylon og hans er getið á fyrstu blöðum Biblíunnar (1.Mós.10:8). Hann er sagður hafa byggt borgir svo sem Níníve og fl.

Það ætti að vera áhrifaríkt fyrir okkar samtíma að heyra þessi gömlu nöfn nefnd í nútíma hernaðarbrölti hins islamska ríkis. Því gömlu nöfnin vísa til sögunnar og ekki síst Biblíunnar. það er engu líkara en að við fáum upphaf mannkynssögunnar í fangið.

Nimrod er sagður vera einn af upphafsmönnum trúarbragða sem flokkast undir heiðni eða hindurvitni. Hann átti að hafa gifst móður sinni, Semiramis og hún hafi gert hann að guði eftir andlát hans. Babylóníumenn hafi nefnt Pólstjörnuna Anú sem var annað nafn á Nimrod. Stjörnuspekingar Babylonar voru búnir að finna það út að allar stjörnur himingeimsins snérust í kringum Pólstjörnuna sem hlaut því að vera hásæti ,,hins hæsta" og þá auðvita hásæti Nimrods!

Ríki Nimrods með borgina Níníve kemur seinna að í sögum Biblíunnar. Þá var Jónas sendur frá Joppe í Ísrael, þorpinu við hliðina á Tel Aviv. Jónas átti að flytja borginni alvarlegan boðskap. Syndir Níníve voru stignar upp til himins og kölluðu á dóm Guðs yfir borgina. íbúarnir höfðu aðeins eitt tækifæri til að bjargast undan dómi og tortímingu og það var með því að hlýða boðskap spámannsins. Jónas var samt ekki tilbúinn til að fara og ætlaði að flýja frá kölluninni og tók því skip, tarsis knerri, frá Joppe og ætlaði trúlega frekar til Spánar. En þá sendi Guð megnan storm svo við lá að skipið færist. Jónasi var varpað í sjóinn og var gleyptur af stórfiski og er eftir það kallaður í mannkynssögunni: ,,Jónas í hvalnum"! Honum var síðan spýtt upp á land, trúlega á SV strönd Svartahafs, eins og Jósefus sagnaritari segir. Þaðan gekk hann til borgarinnar Níníve og flutti þeim boðskapinn. 

Við prédikunina gerði borgin iðrun og konungur skipaði öllum að klæðast sekk og ösku til iðrunar. Guð sá hið breytta hugarfar og þyrmdi borginni og fékk hún að standa í það minnsta í 500 ár til viðbótar. Jónas aftur á móti kom sér vel fyrir undir rísínusrunni og hugðist horfa á eyðingu borgarinnar af besta stað í öruggri fjarlægð.

Flestir þekkja þessa sögu, geri ég ráð fyrir og því er meðfylgjandi frétt um Nimrod vekjandi fyrir okkur að rifja aðeins upp söguna.

Það hefur nefnilega verið skilningur kristinna manna að áður en Guð gerir upp málin við okkur mennina þá opni hann á tækifæri fyrir okkur til að snúa okkur frá braut óreiðu og blekkinga. ,,Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar og hér er meira en Jónas. Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum Jarðar að heyra speki Salómons og hér er meira en Salómon." (Mt.12: 41 - 42)

Þannig má segja að atburðir tengdir Jónasi, Níníve og öðrum fornum Biblíusögum eru notaðir sem fyrirmynd uppa réttlæti Guðs með viðvörun hans til samtímans. Hvernig Guð dæmdi fornar syndir þá dæmir hann nútímasyndir eins. Leiðin frá dómi Guðs er því fyrirgefning fyrir Jesú og iðrun okkar honum að skapi. Drambið sem hafnar vegi Guðs og hjálpræðisverki Jesú Krists gerir okkur illa sett frammi fyrir Guði. Við viljum frekar stunda yoga og gera það sem ,,okkur líkar" í stað þess að fara Guðs leiðina úr ógöngum syndarinnar. Eina færa leiðin er að snúa frá syndum og biðja Jesú Krist að taka við stjórninni í okkar daglega lífi.

Snorri í Betel


mbl.is Eyðilegging Nimrud algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Islam, trú friðarins?

Okkur berast daglega fréttir af ofbeldi og hryðjuverkum. Þau eru framkvæmd í Evrópurríkjum sem og þeim sem falla undir skilgreininguna sem Múslimsk ríki. Það eru engin grið í þessum væringum. 

Lítið er hægt að segja því þá eru menn krossfestir sem ,,rasistar" og það vill enginn vera rasisti. Ekki er hægt að spóla til baka og endurhæfa hryðjuverkamennina því þeir margir fórna sjálfum sér í illvirkinu. Fjölskyldurnar bera blak af viðkomandi, því hann var svo góður og yndislegur að hann gerði ekki flugu mein. En samt logar Evrópa og í öllum tilvikum eru þeir að verki sem kalla sig múslima. Fjölskylda gerandans fær milljónir lagðar inná bankareikning sinn. 

Aðferðirnar eru kunnar. Þær voru æfðar 1972 þegar Palestínumenn réðust á gyðingana í Ólympíuþorpinu í München með hríðskota byssum. Þá skildu allir gremju Palestínumanna vegna meintra grimmdarverka gyðinga og þeir höfðu ,,stolið landi" þeirra.

Svo voru annarskonar hryðjuverkaárásir hafðar í frammi. Flugvélar, strætisvagnar og lestir sprengdar. Sveðjur og axir í almenningssamgöngum sem og stórvirkar vinnuvélarn notaðar á almenna borgara. Og nú er ráðist inní hin helgu vé. Kirkjur njóta ekki friðhelgi eða griða. Allt eru þetta æfð atriði og háþróuð útfærsla fyrst hjá Yassir Arafat og ,,skæruliðum PLO" og nú þeim sem tengjast ISIS. En mótmæla íslamskir klerkar? Þessar árásir sem koma óorði á Islam og hinn venjulega múslima, andmæla einhverjir þeirra? Og fjölskyldur gerendanna fá milljónir lagðar inná bankareikninga sína. Það eru blóðpeningar og ættu auðvita að vera upptækir af stjórnvöldum.

Nú er annar svipur að færast yfir Evrópu sem hýsir í dag 52 milljónir múslima. Það eru borgarhverfin sem meira að segja lögregla viðkomandi lands fer ekki inní öðruvísi en að spyrja leyfis. Allt eru þetta þekktar aðferðir sem tíðkaðar hafa verið í Ísrael og beitt sem vopni gegn Ísraelsríki. 

Allar þjóðir Evrópu hafa ályktað Palestínumönnum í vil og kennt Ísrael um allar þessar hörmungar sem hafa bitnað á gyðingunum. Og gyðingarnir svöruðu þannig að berjatínslu sérfræðingunum og lækninum líst ekki á blikuna. Hinir illu Ísraelar eiga ekki að hafa rétt til sjálfsvarnar að hans mati ekki skal einu sinni versla af þeim.

Meðan Evrópa ályktaði gegn gyðingum út af hryðjuverkaárásum Palestínumanna óx tala hinna friðelskandi Múslima í Evrópu. Nú stendur álfan frammi fyrir sömu vandamálum og gyðingar. Beitt er sprengjum, hnífum, byssum og bílum.

Hvað er til ráða?  Við á Íslandi höfum gert sömu kórvillu og Evrópa og það er að flokka flóttamenn í æskilega og óæskilega. Kristnir Arabar hafa ekkert hingað að gera og þeim er ekki boðið að koma hingað úr óhrjálegum flóttamannabúðum. Múslimum er boðið. Það er svo sem allt í lagi ef það fólk tileinkar sér okkar siðferði og verðmætamat en leyfir Islam það?

Allir sjá nú hversu ótrúlega hratt Tyrkland en sett undir alræðisstjórn. Þetta er auðvelt því Islam boðar Kalífaveldi eða einveldi.

Betra væri að Evrópa hefði lesið rétt í ofbeldisverkin í Ísrael og staðið með gyðingunum. Við á Íslandi höfum enn tíma til að byrgja brunninn og forðast ,,Tyrkjaránið" hið síðara þegar stúlkur eru ginntar í hjónabönd og landnám hefst í okkar landi af því að við tókum ekkert mark á viðvörunum sem berast okkur frá fréttahaukum samtímans.

Besta meðalið gegn ógn Islams er að við sjálf endurnýjum fermingarheitið og styrkjum trú okkar á Krist Jesú og það sem hann kenndi. Eina haldgóða meðalið gegn kolrangri heimspeki er réttur boðskapur kristinnartrúar og kærleika. Það er verið að steypa okkur í þriðju heimstyrjöldina. Eigum við að láta sem ekkert sé?

Snorri í Betel


Nei, Guð vill líf!

Það er óhætt að segja að trú manna á Guði er ærið mismunandi og enganvegin sú sama. Guð Kristninnar er sagður lífgjafi og hefur sett okkur lög og reglur sem styðja líf og framgang þess.

Biblían segi að Guð vilji ekki dauða syndugs manns henldur að hann,,komist til iðrunar".

Ennfremur fær Móse þau skilaboð að fyrir hann er lagt lífið og dauðinn, blessunin og bölvunin.,,Veldu þá lífið" segir Guð. (5.Mós.30: 19)

Hér eru komin höfuðeinkenni kristni og gyðingdóms að lífið er perlan sem við eigum að varðveita. Þetta eru orðin frá Guði sem elskar og tók á sig dauðann svo við mættum lifa.

Oft hefur mér fundist menn sem tala um Guð og trúnna á Guð sniðganga þennan þátt í umræðunni. Við sjáum svo vel að það eru einhver ægiöfl bölvunarinnar sem leggjast á okkur og það kallar Biblían lögmál syndar og dauða. Kjarni Fagnaðarerindisins er einmitt sá að við eigum undankomu frá lögmáli syndar og dauða en það er vegna trúarinnar á Jesú. Því hver sem á hann trúir glatast ekki heldur eignast, fær eilíft líf.

Þeir sem ganga fram í nafni ,,Guðs" og farga náunganum eru ekki á Guðs vegi. Þeir ganga erinda þess höfðingja sem Jesús segir að sé ,,manndrápari frá upphafi". Jesús heldur áfram þessari orðræðu: ,,Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir." Þess vegna áttu þeir Djöfulinn að föður. (Jóh.8: 44)

Af þessum orðum má glöggt sjá að með afstöðunni til lífsins má af því ráða hver er höfðingi þinn. Velurðu dauðann og syndina þá ertu utan náðarinnar sem fæst fyrir Jesú. Sú leið hefur ávexti sem engum líkar og allir reyna að forðast.

Þess vegna er afar hollt fyrir okkur Íslendinga að rifja upp fyrir okkur fræðin sem flestir hafa verið fermdir uppá að við gerum Jesú að höfðingja og leiðtoga lífs okkar. Hann vill ekki dauða syndugs manns heldur að hann snúi sér frá syndum og lifi.

kær kveðja

Snorri í Betel


mbl.is „Guð vill að þú deyir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefðu að móðurmálið mitt...?

Í dag tefla menn mannréttindunum sem gildri ástæðu fyrir losun á reglum, skyldum, og hefðum ýmissa mála. Þessi tillaga um nafnalöggjöf eða enga nafnalöggjöf mun ekki verða gæfuspor. Sérstaklega vegna þess að nú tefla menn ,,mannréttindum" fyrir tillögunni. Auðvita eru það engin mannréttindi að varðveita íslenska mannanafnahefð. Vissulega má segja að hún hafi breyst svosem undanfarið árþúsund. Enginn Ketill Flatnefur, Þrándur mjóbeinn, Ljúfvina, Kjallakur, Hrafsi eða Hálfur prýða nafnaflóru samtímans en tilheyra samt okkar sögu.

Árið 2000 lá víkingaskipið Íslendingur við bryggju í Vestmannaeyjum. Ég spurði Gunnar Marel hvort við gætum ekki farið í siglingu á þessu fagra skipi. Hann sagði að ef við gætum safnað einhverjum hóp þá myndi hann fara með okkur gegn vægu gjaldi. Við létum fólkið á bryggjunni vita og flestir vildu sigla á víkingaskipi. Þarna um borð var Gunnar, skipstjórinn svo kom Snorri, Gísli, Þorsteinn, Hjálmar, Sigurður, Bergþóra, Guðrún og Einar svo eitthvað af nöfnunum séu nefnd.

Ég hafði á orði við Gunnar að áhafnarmeðlimir og farþegar víkingaskipsins árið 2000 eru með sömu nöfnum og var eittþúsund árum fyrr á slíkum farkostum. Þá hafði hann á orði að þetta væri all miklu öðruvísi en í Noregi þar sem Jan, Kjell og Roger eru algeng nöfn og víkinganafnaflóran sjaldgæf, helst varðveitt í afdölum eða millinöfnum.

Mér finnst ekkert betri mannréttindi að leyfa fólki að kalla drenginn Roger eða Roj en sniðganga Hróðólf og Hróa. Ég sé ekki að sum nöfn sem börn hafa verið nefnd eftir vinsælum sönglögum bæta nafnaflóruna. Ég þekki dæmi þar sem stúlkubarnið fékk nafnið Ærín og móðirin kallaði á barnið: ,,ærin mín"! Það þótti jafnvel jaðra við móðgun þegar sagt var við barnið:,,lambið mitt"!

Með þessari tillögu að breyta íslenskum nafnalögum til nútíma viðhorfa er tillaga til að breyta Íslenskri tungu. Íslendingum væri hollast að endurskoða þann grundvöll sem þeir ætla að varðveita eða standa á í framtíðinni. Þegar er búið að vega að Helgidagalöggjöfinni og guðlastsákvæðinu, allt í nafni mannréttinda og nú er það mannanafnalöggjöfin. Með þessu áframhaldi má spyrja hvort Íslenskan verði töluð að liðinni öld. Bókin sem varðveitti Íslenskuna er á bannlista yfir gjafir til skólabarna í Grunnskólum Reykjavíkur.

Guðrún Kvaran hefur teflt fram þungum rökum og sögulegum gegn þessari aðför að Íslenskunni og enn fleira bendir til þess að okkat þjóðarvitund, menning og tunga gæti horfið af sjónarsviðinu á 70 árum og það í nafni ,,Mannrétindanna"!

Nýlega sá ég á Vísi að lögmaður fékk ákúrur fyrir að gagnrýna orðnotkunina Kynleiðrétting þar sem kynbreyting segði allt sem segja þarf. Mótrökin voru einmitt að transfólkið vill sjálft ráða hvaða orð þau nota og þá um leið hvernig okkar tungu verði beitt í því samhengi. Við eigum svo sem öll Íslenskuna og ættum því öll að hafa þann rétt að beita þessuáskæra ylhýra til að opinbera hug okkar og varðveita sagnagrunn þjóðarinnar og viðurkennda orðnotkun.

Við erum því komin á ný í spor Fjölnismanna að berjast fyrir sögu og þjóðararfi Íslenskrar þjóðar svo hún megi lifa frjáls í samfélagi þjóðanna. Er sú tilvera okkar ekki líka mannréttindi?

Snorri í Betel


mbl.is Snýst um frelsi og réttindi fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíminn og náttúran!

Ég man eftir því þegar jarðfræði kennarinn vitnaði til gömlu kenninganna um tilurð Móbergs hvernig það myndaðist við mikinn þrýsting í þúsundir ára og fjörusteinarnir, ávalir og kúlulaga, höfðu verið sleiktir af Ránardætrum um árþúsundir og þess vegna komnir með slétt yfirborð.

Þessum kenningum var enginn að mótmæla því þekkingu vantaði á málinu. Svo gaus Surtsey. Þá myndaðist lá barið grjót á fáeinum dögum og móbergið varð til á yfirborði sem og undir fargi ösku og gjalls. Allt var myndað á nánast engum tíma.

Þá sáu leikir sem lærðir að hinn langi myndunar ferill þessara bergtegunda reyndist skammur. Nú bætist enn eitt atriðið í þekkinguna sem bendir til þess hve hratt náttúran vinnur. Má af því spyrja hvort jörðin sé eins gömul og haldið er fram? Er sköpuninni bara ekki ung og frísk? Vinnubrögðin hröð eins og þeg gist gjarnan hjá ungu fólki?

Fyrir fáum árum birtist grein í Lifandi Vísindum um stærðfræðimódel sem hafði reiknað út myndunartíma Júpiters. Niðurstaðan var sú að það tók náttúruna 300 ár að búa til þennan hnött sem er 300 sinnum stærri en jörðin. Þá hefðu sömu kraftar með sömu formúlu og forsendur getað myndað jörðina á einu ári. Eitt ár er ekki langur tími!

Nú ráðast mörg svör við mikilvægum spurningum um tilveruna á trú og áliti okkar en ekki endilega staðreyndum. Vísindin hafa fengið stöðu sannleikans í öllum þessum svörum en þau eru einnig hlaðin kenningum manna og áliti sem breytast hratt þegar grannt er skoðað og farið er inná nýtt svið eins og niðurdælingu við Hellisheiðavirkjun.

sýndu þeir ekki fram á það fyrir skemmstu að hægt væri að búa til demanta á fáeinum klukkutímum með réttri meðferð á gasi?

Eldgosið í St.Helen um 1980 sýndi einnig hve náttúran þurfti skamman tíma til að tré, jafnvel heill skógur steinrann. Trén steinrunnu á fáeinum klukkustundum vegna gas efnanna í gos reyknum sem lagðist yfir og fór inní allar frumur og breytti lífrænum efnum í grjót.

Sköpunin er undur og ekki bundin við milljónir ára!

snorri í Betel


mbl.is Geta bundið kolsýring á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í öruggum höndum!

Barnið var í öruggum höndum hjá góðum ,,afa"! Afarnir erum reynsluboltar í samskiptum við börn og það var greinilegt að barnið kvartaði ekki undan samskiptuum við afa. Þetta sýnir okkur nýja leið sem hægt væri að grípa til að afi nái í barnið þegar fóstrurnar þurfa að ljúka vinnu. Þarna fékk barnið ókeypis pössun hjá afa.

En ætli Akureyri loki Kiðagili af því að leikskólakennararnir þekkja ekki fjölskyldur barnanna? Það mætti gera bragarbót á kvæðinu ,,Sprengisandur" vegna málsins. T.d.: Vænan afa vildi ég gefa til að vera klár til taks í kiðagil!

Snorri í Betel


mbl.is Fékk rangt barn heim af leikskólanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Snorri í Betel

Höfundur

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson

Er lífeyrisþegi og notar tímann til að fylgjast með Ritningunum rætast! Var safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri 2004 - 2018 og kennari í Brekkusóla frá 2001 til 2013.

Hef stundað kennslu frá 1973 á Vopnafirði. Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja frá 1975, Barnaskóla Vestmannaeyja, Iðnskóla- Vélskóla og Stýrimannaskóla Vestmannaeyja. Gerðist kennari við Framhaldsskóla Vestmannaeyja við stofnun hans og fram til 1986. Hóf aftur kennslu við Hamarsskóla Vestmannaeyja uns ég flutti til Akureyrar sumarið 2001.

Hef veitt Hvítasunnukirkjunni Betel í Vestmannaeyjum forstöðu fram til miðs árs 2001 og verið forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri frá 2004 - 2018. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_2207
  • IMG_1548
  • friðrik
  • sveitadúkurinn
  • papakrossinn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband