Illkynjuð kaun komu ..

Frá því er greint í Biblíunni að fylgifiskur vantrúar og þverrandi Guðsótta verði "illkynjuð kaun" sem komi á mennina er hafa merki dýrsins (666- hvað sem það nú þýðir) og tilbáðu líkneski þess. Við trúarlegt kæruleysi opnast dyr tortímingarinnar æ betur.

Við, í vestrænum ríkjum, teljum kristnina öfgatrú og illa ef hún setur okkur hömlur. Samtíminn vill geta ráðið hvað við teljum rétt eða rangt og þá er gjarnan beitt sjónarmiði mannréttinda eða hvað okkur hentar. Hún á aðeins að boða kærleikann, umburðarlyndið og fyrirgefninguna; og það gerir kristnin vissulega. En það er meira í pakkanum!

Við í þessum vestrænu ríkjum höfum talið okkur búa við svo mikið heilsufarslegt öryggi að Guð hefur ekki sess né sæti í vestrænni "menningu". En Biblían segir okkur einnig merkilegan sannleika - auðvitað bitran um leið- að þegar mennirnir fara að tilbiðja dýrið og líkneski þess þá opnast dyr pesta og illkynjaðra kauna. Við sjáum að þetta er ekki bara miðalda vandamál heldur raunveruleg ógn okkar tíma ef menn gæta ekki að sér.

Að gera Jesú Krist að Drottni, frelsara og herra okkar daglega lífs þá frelsast menn frá valdi þessara pesta og kýla sem nefnd eru í Opinberunarbókinni 16.kafla og versi 2. Greinin segir okkur að nefndur spádómur Biblíunnar getur hæglega orðið fréttamatur og veruleiki náinnar framtíðar. Guð hjálpi okkur!

kær kveðja

Snorri í Betel 


mbl.is Svarti dauði vaxandi ógn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æfingin skapar meistarann!

Þetta eru alþekkt sannindi og komu í ljós bæði eftir fyrri-og seinni heimstyrjöld, Víetnamstríðið og svo nú. Þessir ungu menn eru komnir með þjálfun og reynslu til að láta andstæðing sinn valfalla, auðvitað þarf átak til að endurhæfa þá aftur í þjóðfélag sem vill varðveita líf.

En þessi hlið sýnir líka ákveðinn veikleika mannsins. það eru til "siðferðismúrar" sem maðurinn á erfitt með að rjúfa. En þegar það tekst þá hefst hamsleysið. Það kom fram hjá Sigmund Freud í upphafi dáleiðslutilrauna hans að hann fékk unga stúlku til að taka þátt í verkefninu. Þegar Freud þóttist hafa hana á valdi sínu þá sagði hann henni að afklæðast. En er kom að nærfötunum þá tregaðist stúlkan til að halda áfram. Sigmund bauð henni að berhátta sig en þá löðrungaði stúlkan Freud og hafði sig á braut. Þetta þótti sýna hvar þröskuldur blygðunarinnar lá. Freud komst ekki með hana lengra en að þeim múr siðferðisins. Í dag vantar þennan múr yfirleitt og þeir sem reyna að endurbyggja hann eiga á hættu að verða úthrópaðir.

Siðferðis- múrar þjóðfélagsins eru svo molaðir og má benda á margt því til staðfestingar. En skoðum þetta: að þegar bankar fá að taka 24% vexti bjóða vinnuveitendur aðeins 3 % launahækkun og hafa bæði stuðning hægri sem vinstri afla ríkisstjórnarinnar sem bakland, þrátt fyrir 6% verðbólgu. Þetta sýnir að sömu gildi ríkja í launastefnu og kjaramálum á Íslandi í dag og var á nýlendutímanum þegar  Danir beittu einokunarkerfinu á Íslandi. Hvenær ætla landsmenn að velta oki einokunarmúranna af herðum okkar, Vonandi tekst okkur betur en stríðsæfðri þjóð að endurbyggja siðferðið svo Guð megi hafa þóknun á hegðun og siðferði okkar. Í því mun blessun fram koma. Hér komum við einnig að stöðu hjónabandsins, heimilisins og kristins hugarfars á Íslandi.

kær kveðja

Snorri í Betel 


mbl.is Fyrrum hermenn tengjast morðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dó út fyrir 4000 árum

Merkilegt hve mörg atriði náttúrunnar benda á miklar breytingar á jörðu fyrir u.þ.b 4000 til 6000 árum. Það er ekki langur tími alla vega miðað við milljónir hvað þá  milljarða ára. En Þessi umræddi tími er ískyggilega nálægt þeim atburði sem við köllum "Nóaflóð".

Fornleifafræðin finnur menjar elstu borgarmenningar eða skipulagðra þjóðfélaga frá svipuðum tíma tíma(6000 - 10000 f.kr). Meira að segja fannst nýlega í Dakota (held ég) risaeðla sem var í samfélagi við stóran krókodíl. Eðlan var auðvita steingerð og í skráp sínum.  Þessi dýr voru greinilega að flýja undan einhverjum hamförum eftir legu þeirra og flóttastefnu. Allt bendir til Nóaflóðsins og að Biblían segir okkur sannari sögur en sumir vilja viðurkenna.

kveðja

Snorri


mbl.is Frosinn loðfíll gæti varpað ljósi á loftslagsbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yður er í dag frelsari fæddur - eða var hann bara "endurfæddur" ?

180px-Hungarianpraymanuscript1192-1195

Fréttablaðið flutti mér tíðindi í dag að Jesús Kristur hafi aldrei verið til. Það bætir líka við að margir fyrir rennarar "Jesú" hafi verið  til  allt frá árinu 3000 f.kr. og til daga Jesú Krists. Vitringarnir, kraftaverkin, krossfestingin, dauðinn og upprisan voru aðeins þekkt minni helgisagna sem teygðu sig frá Indlandi, um Mið-Asturlönd, Egyptalands og Grikklands, jafnvel inní miðja Evrópu. Ekki var greint frá því að þessi atriði eru líka innihald fornra spádómsrita Biblíunnar og þú lesandi getur gengið að þeim vísum í dag - jafnvel í Nýju-Biblíuþýðingunni.

Fréttablaðið hefur þessar upplýsingar af netinu, frá því sem kallast "Zeitgeist"  eða "tíðarandi" og sérstakar þakkir fær Sigurður Hólm Gunnarsson (Vantrúar-seggur).

Þessar upplýsingar skilja alla kristna menn eftir sem einfeldninga er trúa á staðlausa stafi því allan tímann var bara verið að fjalla um endurris sólarinnar á himni. Merkilegt að þessi uppristrú á sólinni skuli hafa orðið  til í þeim löndum þar sem skammdegis gætir ekki og varla sjónarmunur á sólarhæð hvort er um að ræða "vetrar- eða sumarsólstöður".

En Pétur postuli tilkynnir okkur að hann hafi verið sjónarvottur að hátign Jesú Krist. En hann er þá bara lygalaupur því hver trúir ekki Fréttablaðinu og Sigurði Hólm?

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um fleirri atriði frásögunnar því þessar gömlu sögur eru svo skotheldar að við getum pakkað Biblíunni niður í jólapakka og sleppt því að taka hann upp!

En sögurnar sem Fréttablaðið tilgreinir um Hórus, Mítra, Kristna og Isis eru gamlar. Hvað ætli handrit þessara sagna séu gömul? Frá því um 1000 e.kr. Ef þau styddu Biblíuna þá væri þeim algerlega hafnað að kröfu Sigurðar Hólm og félaga og enganvegin tekin til greina sem rök í málinu vegna tímalengdar frá því atburðirnir áttu að eiga sér stað og þar til þeir voru færðir í letur. Kristur hafði sjónarvotta, sem auðvitað er ekkert marktakandi á, því þeir voru trúaðir!

Svo eru fleirri atriði sem eru ekki nefnd til sögunnar. Allir þessir "guðir" dóu. En sá einhver upprisu þeirra? Eru grafir þeirra ekki enn uppteknar? Þeir eru bara sólin skínandi í veldi sínu sem býður ekki uppá skammdegi eða hugmyndafræði forn-norrænna þjóða sem fundu fyrir skammdegi og löngum dimmum nóttum.

En þetta með Jesú. Hann fellur inní gömlu sögurnar um Hórus, Mítra, Krishna og hvað þeir hétu nú allir. En Kristur dó og var grafinn. En eru þá menn að segja allir í einum kór að hann reis upp, eins og sólin í byrjun nýs dags? Amen, það er mergur málsins. Hann skildi meira að segja eftir sig líkklæðin. Pétur, þið vitið- lygalaupurinn - var sjónarvottur að hátign hans "stóð upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein" (Lúk.24:12). Það þarf nú ekki að taka það fram að hann hafði líkklæðin með sér. Og þau eru enn til geymd í Tórínó á Ítalíu.

Svo öll þessi rök um að Jesús hafi verið aðeins stjörnumerkjafræði í útgáfu kristninnar verður enn undarlegra þegar "Súperstjarnan" fór úr líkklæðunum og skildi eftir á þeim innbrennda mynd svo að hver sem trúir ekki sjónarvottunum eða handritahöfundum að upprisu hans megi sjá klæðin sem bera sömu sár og handritin segja og sjónarvottarnir greindu frá. Líkklæðin hafa nokkuð heillega sögu og til eru málverk af þeim frá því fyrir 900 e.kr. Og þyrnikórónan sem kristur bar var sko ekki tengd dýrahring stjörnuspekinnar heldur niðurlægjandi krýning rómverskra hermanna til að smána þann sem seinna skildi eftir sig líkklæðin. Þessi er sá sem hefur sko skilið alla eftir í forundran. Þeir vantrúuðu eiga eftir að útskýra margt sem skilningur þeirra nær ekki. Það er ekki nóg að hafna gömlum rökum og órækum staðfestingum. Það þarf að viðurkenna vandann að skynsemi okkar skilur ekki allt og ekki Guð.

Ef líkklæðin eru aðeins frá því um 1260 - 1350 e.kr. eins og C14 aldursgreiningarnar hafa greint frá þá eru egypskar múmíur ekki eldri en frá árinum 215 e.kr eins og samskonar C14 mælingar sýna jafnvel þó svo að múmíurnar voru lagðar til hinstu hvílu um 1500 f.kr. Það er nefnilega cellulósa hjúpur af völdum baktería sem hefur hjúpast um þræði efnisins og ruglar aldursgreininguna.

Niðurstaða:
Sagan um Jesú Krist er fullsönnuð upp að 99% og við þurfum að trúa þessu 1 prósendi sem eftir er. Svo örugg er vitneskjan um upprisu frá dauðum og aðgang að Guði almáttugum vegna trúarinnar á Jesúm Krist.

Stundum sjáum við hvað sagnfræðin er takmörkuð. T.d. varð sólin almyrk í 3 klst. föstudaginn langa þegar Biblían segir að Jesús hafi gefið upp andann? Þá hefur orðið almyrkt um alla jörð. Eða varð bara myrkur í Jerúsalem? Hvað segja fornar bækur?
Sagnfræðingurinn Will Durant segir í bók sinni um Rómaveldið (síðara bindið. ég gríp niður í bls 243)

 

 "Nær miðri fyrstu öld staðhæfði heiðinn þrætumaður að Thallus hét að myrkrið sem varð við dauða Krists hefði verið náttúrulegt fyrirbæri. Frá þessu segir í ritkorni einu eftir Júlíus Africanus."

Ef Jesús Kristur varð aðeins þjóðsagnarpersóna þá segir Will Durant þetta: (bls 243)

En ef við viljum neita tilveru Krists og gera hann að þjóðsagnarpersónu þá hefur sú persóna verið búin til af einni kynslóð og verður það að teljast einkar ósennilegt."

 Svo vil ég benda hinum sagnfræðisinnuðu gagnrýnendum á að þegar fjallað um forna sögu trúarinnar og segja "sagnfræðingar  nefna lítið sem ekki neitt um þau mál". Skoðið hvaða upplýsingar sagnfræðingar samtímans segja um trúarsöfnuði og prédikara samtímans. Hvaða sagnfræðingar hafa fylgst grant með og greina frá á hlutlausan hátt?

Fjarlægð sagnfræðinganna liggur nær skilningi okkar en við höldum. Þeir rituðu það sem þeim var "borgað" fyrir. Sá sem greiddi launin réð umfjöllunarefninu. Og postulinn Páll sagði að hann væri "öreigi en ætti þó allt". Lýsing hans á kjörum sínum bendir okkur á að þeir sem fylgdu Jesú Kristi að málum bólgnuðu ekki út af verðbréfum eða býlífi í konungshöllum. Þeir voru álitnir hættulegir og best væri að slíkir menn héldu sig til hlés-  að loka þá inni. En fangelsin gátu ekki haldið þeim og lygin ekki kæft þá - þó svo að lygin standi umkringd "Baugsveldinu" á spjöldum Fréttablaðsins þá viti alþjóð að upplýsinar sjónarvotta Biblíunnar um fæðingu, dauða og upprisu Jesú er öruggari vitneskja en það sem Sigurður Hólm matar Fréttablaðið á og komið eru úr "Zeitgeist".

Jesús Kristur fæddist af mey, flúði til Egyptalands, bjó í Nasaret, var píndur af Pontíusi Pílatusi, krossfestur, dáinn, grafinn og reis (aftur) upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum. En ekki Fréttablaðinu.

Til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf! Dýrð sé Guði - þvílíkur boðskapur!

Gleðileg jól

 

Snorri í Betel "

 


Tími trúarinnar?

Læknirinn sem skrifaði tvær bækur Biblíunnar gefur okkur lesendum innsýn í samfélag manna fyrir 2000 árum. Ekkert af því sem kemur fram í þeim efnum hefur verið afsannað. Fornleifafræðin hefur reyndar staðfest það sem læknirinn greindi frá.

Hann segir okkur að í Efesus (í Tyrklandi) hafi verið trúarlegur-stóriðnaður. Þar hvíldi efnahagur almennings á því að búa til líkneski og skurðgoð. Artemis var gyðja borgarinnar og þegar fólk snéri sér frá þeim átrúnaði til Kristni þá varð mikil æsing í borginni því að við blasti "efnahagshrun" og menningarbylting því Artemis missti tign sína. (Post. 19)

Höfundur fylgir ferðalögum Páls postula um lönd frumkristninnar. Hann gefur okkur tækifæri til að skyggnast inní þá tegund af trúboði sem Páll stundaði. Þegar hann kom á nýjan stað þá byrjaði hann á að fara til gyðinganna og  sanna fyrir þeim að Jesús frá Nasaret væri kristur. Sumir tóku við því aðrir ekki. En enginn hafnaði boðskap Páls á þeim forsendum 1) að atburðirnir hefðu aldrei gerst, eða 2) að Páll væri með tilbúning eða samsuðu frá grískum og persnerskum ævintýrum. Fáir andstæðinga Páls héldu því fram að hann færi með staðlausa stafi! Hann var helst sakaður um að eyðileggja lifsvenjur borgarbúa ( landsmanna) og eyðileggja átrúnað þeirra.

Læknirinn góði fylgir Páli postula þegar hann fór í "skóla" og boðaði trú. Hann ferðast með honum síðan til Jerúsalem og segir frá handtökunni, réttarhöldum og síðan þegar Páll skaut máli sínu til keisarans og fór til Rómar. . En það er á árunumSagan endar á því að Páll er í stofufangelsi í Róm og stundar trúboð tálmunarlaust 61 - 63 e.kr.

Það þýðir að Páll postuli er ekki látinn í sögulok og því all verulegar líkur á að Postulasagan sé rituð einmitt á þeim árum áður en Páll er líflátinn. Það hefur engin ástæða verið að sleppa frásögn um dauða Páls þer sem hann t.d. nefnir dauða Stefáns píslavottar (31 eða 32.ekr) .Þá er Postulasagan samtímaheimild og rituð þegar þeir sem þekktu atburðina voru lifandi.

Þá gátu einmitt menn sem þekktu til atburða getað hafnað, leiðrétt eða haft eitthvað um málin að segja. Lúkas nefnir einnig fyrri frásögu sína, Lúkasarguðspjallið sem er greinilega ritað nokkru áður en Postulasagan hefst. Þá voru samtímamenn Jesú Krists, Páls postula og Lúkasar lifandi og hann gat því auðveldlega borið saman frásögurnar og atburði sem menn höfðu upplifað.

Þessi nánd í ritunartíma og sögutíma er óþekkt nema helst núna á undanförnum 300 árum. Heimildargildi Guðspjallanna og Postulasögunnar er því miklu meira vegna nálægðarinnar við atburðina sem ritin greina frá. Það er því stórundarlegt ef þessi rit séu véfengd en sögur um t.d. Alexander mikla trúað sem eru ritaðar um 200 árum eftir dauða hans. Þá var enginn til frásagnar eða leiðréttingar.

Ef því heimildirnar um hina fornu atburði grískrar sögu teljast sannar þá ætti enginn heilvita maður að véfengja frásögur Biblíunnar um Jesú Krist. Því eru rökin sem meina prestum og forstöðumönnum komu í skóla sem leikskóla til "trúboðs" eða helgihalds hvorki að hugsast né heyrast hjá upplýstri þjóð.

Þegar síðan er véfengt að þessar heimildir Guðspjallanna um komu Jesú Krists, líf hans, dauða og upprisu fá að heyrast og fá athygli þá ættu menn að velta fyrir sér hvað annað bendir til að sagan um upprisu Jesú Krists er sönn. Þá verð ég að benda á elstu ljósmynd veraldarsögunnar af krossfestum manni. Myndina á líkklæðunum sem geymd eru í Túrin á Ítalíu.

Myndin á klæðinu endurvarpar ekki ljósi eins og málning gerir enda er hún innbrennd og samkvæmt rannsókn fornleifafræðingsins Maríu Graziu Siliato sem hún gaf út 1997 sýndi hún fram á að á líkklæðið hafi verið skrifað "Jesús frá Nasaret" skömmu eftir að klæðið var látið hylja líkið.

Niðurstaðan er því þessi: Jesús var til, Guðspjöllin eru samtímaheimildir og Postulasagan skrifuð áður en Páll postuli var líflátinn 67 e.kr.

Það er því fráleitt að telja önnur trúarbrögð "jafnrétthá" kristinni trú og sé skylt að fá sama rými í námsskrá barna í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. 

Tökum á móti Jesú Kristi sem hinni bestu jólagjöf sem mannkyninu hefur hlotnast. 

kær kveðja

Snorri í Betel 


Hóflegar kaupkröfur!

Tókuð þið eftir hinum föðurlegu varnaðarorðum? Kjarasamningar eru að verða lausir og skriður er kominn á viðræður um kaup og kjör. Þá heyrast "Landsföðurlegu"- áminningarorðin að setja hóflegar kaupkröfur til að allt fari ekki úr böndunum.

En hafa menn ekki lifað við hóflegar kaupkröfur. Eftir síðustu kennarasamninga leiddi könnun það í ljós að kostnaður við kennaramenntun  er óarðbær og mun aldrei skila sér til baka í formi hækkaðra launa. Er það hófleg kjarabót að námi skili sér ekki í bættum kjörum?

Það er sama hvað bensínið hækkar að ríkið bólgnar út á sæk milljarða í afgang vegna aukinna skatttekna. Hafa landsfeðurnir skilað þessari hagsæld til leikskólakennara? Eru hinar hóflegu kauphækkanir að eyðileggja leikskólana?

Bankarnir hafa hækkað vextina. Þjónustugjöld þeirra sjá um allan daglegan rekstur. Verslunin skilar trauðlega skattalækknunum t.d. veitingastaðirnir lækkuðu ekki vörur sínar þó að ríkið hafi fellt niður gjöld. Hinar hóflegu kaupkröfur komust ekki til neytenda.

Svona væri hægt að halda áfram og benda á virðingarleysið sem launþegum er boðið uppá þar sem þeir gráðugu og ríku fá óáreittir að maka krókinn en hinum er sagt að stilla kaupkröfum í hóf.

Af hverju er þetta ranglæti? Þegar hinar hóflegu kaupkröfur og "þjóðarsáttasamningarnir" voru settir á þá var verið að bjarga útflutningsgreinunum og launþegar áttu að fá til baka kjaraskerðingarnar þegar þrengingartíminn væri liðinn. Hafa menn staðið við þessi fyrirheit?
Nú heyrast háværar raddir um láglaunasvæðið "úti á landi" og hálaunasvæðið í Reykjavík.

Starfsfélagi konu minnar fór úr iðjuþjálfastarfi frá Akureyri og til Akraness. Hún hækkaði um 100 þúsundir króna í mánaðalaun. Flutningurinn skilaði henni 1200 000 í auknar tekjur á ári. Siðan eru liðin 2 ár.

Hvers vegna eiga menn að láta bjóða sér slík sérkjör að vera á láglaunasvæði eða á láglaunataxta?

En mesta alvara þessa máls er ekki kaup og kjör heldur hin siðferðilegu viðmið. Hverjir mega græða og hverjir eiga að blæða. Sjá menn ekki það að Íslenskt samfélag er að verða þrælaþjóðfélag þar sem öryrkjalaunin falla yfir þá sem ekki sjá um að sýsla með peninga. Þeir sem meta uppeldi og þroska barna mikils og starfa við það eru settir á örorkubætur. Auðvitað, þeir skapa ekkert í þjóðfélaginu. Barnagæsla er ekki arðbær atvinnuvegur!

Og trúlega má kenna þessu fólki um hve illað það er statt vegna þess að þeir sem skammt kaupið voru einu sinni í uppeldi hjá þessu fólki og skilaboðin hafa ekki alveg verið nægilega skýr að kennaranum ber að sýna viriðngu og borga mannsæmandi laun.

Þeir sem skammta launin þurfa að vera innréttaðir á réttan hátt. Peningurinn er aukaatriði en maðurinn, meðbróðirinn, aðalatriði.

Sem dæmi. Ísrael er lítið land. Þar eru engar náttúruauðlindir nema jörðin og vatnið. En það er eitt best stæða land Miðausturlanda. Bestu kjör og afkoma sem þekkist í þeim heimshluta. Af hverju? Jú, þar er manngildið hærra metið en í öllum hinum löndunum í kring. Olían hefur ekki skapað betri hagsæld. Það þarf nefnilega rétta hugsun inn í þegna landsins til að réttlæti þrífist. Eru Íslendigar að lenda í feni launakúgunar af því að siðferðisgrunnur þjóðarinnar er að bresta? Er náunginn  fæddur til þess að arðræna? Hafa  bankar, sjóðir og stofnanir frjálsan aðgang til hækkana og þá um leið kjaraskerðinga á almenning? Og launþegum bara sagt að stilla kröfum í hóf til að raska ekki jafnvæginu!

Vita menn ekki að Biblían (1981 þýðingin) segir: Réttlætið hefur upp lýðinn (hækkar launin) en syndin er þjóðanna skömm!

Föðurleg kveðja

 Snorri í Betel

 


Forvarnir og fordómar!

Sagt er að ef unglingar stundi íþróttir þá sleppi þeir líklega úr klóm eiturlyfja. Þessa klysju flytja silkihúfurnar í samfélaginu og fyrir bragðið ausa fé í unglingastarf íþróttanna. En hver er staðreyndin? Þegar menn fara á völlinn eða sitja heima og njóta íþróttaleikja þá svolgra þeir bjór á meðan. Ölstofurnar bjóða uppá breiðskjá fyrir þá sem vilja horfa á leikinn með öðrum og fá sér bjór.

Eftir leikinn fá leikmenn sér oft bjór eða góðan slurk af snuffi. Ég veit að það eru ekkert allir! En hvað verður um þá sem ekki taka þátt og falla ekki inní hópinn?
Þegar Íþróttamaður ársins er valinn þá eru allir edrú, eða hvað?
Í íþróttunum eru aðeins þeir lélegustu sem falla á lyfjaprófum, reykja, drekka eða fá sér í nös, eða hvað?

Eru menn ekki farnir að sjá það að eiturlyfin komast inní hvern sem ekki hefur einbeittan vilja til að segja nei. 

Leyndardómurinn við að verða ekki Alkóhólisti, eiturlyfjafíkill, bjórþambari eða tóbaksþræll er að kunna að segja nei á réttu augnabliki. Þar er nefnilega kjarni málsins.

Ef uppeldi okkar miðar ekki að því að barnið læri að segja nei þá glatast barnið. Það er eitt sterkasta vopn foreldra að ala barnið upp í því umhverfi að nei er eðlilegur þáttur í lífinu. Við klikkum illilega í uppeldinu þegar við látum allt eftir barni okkar.

Og við svíkjum börnin okkar alvarlega þegar við látum aðra ala þau upp hvort sem það er skólinn, skátar, íþróttir eða bíóin. Skylda foreldranna er að vaka yfir heilbrigðu lífi barnanna. 

Hin kristnu gildi hafa reynst mér afar sterkur bakhjarl. Ég lærði það ungur að "ungur maður gæti haldið vegi sínum hreinum með því að gefa gaum að Orði Guðs"! Guð segir í Orði sínu að líkami okkar sé musteri heilags anda. Íverustaður heilags anda? Þetta gaf mér ástæðu til að hugsa um líkama minn sem eign Guðs og ætlaður honum en ekki nikótíni, alkóhóli, kókaíni eða hórdómi. Synd átti að forðast en ekki að faðma.

Íþróttir frelsa engan frá synd né eiturlyfjum þó þær byggi upp líkamlegan styrk og snerpu. Það er heilbrigð hugsun sem æfir okkur að segja nei við synd sem frelsar frá eitri og fíkn.

Það þjóðfélag sem segir okkur ekki satt getur ekki leitt unmennin frá fíkn til frelsis - það gerir aðeins rödd og boðskapur sannleikans. 

Dýrð sé Guði fyrir að boðskapur hans um að líkaminn er musteri heilags anda er frelsandi boðskapur og frábær grunnur til forvarna.

kær kveðja

Snorri í Betel 


Friður á ófrið ofan.

Það skýtur skökku við að sjá einbeittan vilja Condolísu og Bush til að koma á friði í botni Miðjarðarhafs. Í höndum NATO er friðargæsla í Líbanon. Þaðan bárust fréttir í gær að undir vökulum augum friðargæslusveita eru Hisbollah búnir að sanka að sér jafnmiklu magni vopna og var fyrir átökin árið 2006.

Í morgun heyrðust fréttir af miklum vopnaflutningum frá Egyptalandi til Gaza þrátt fyrir að Egyptar hafa fyrir löngu (á dögum Sadats) undirritað friðarsáttmála við Ísrael. Einn liður þeirra var að tryggja öryggi við landamærin. Þar hafa Egyptar algerlega brugðist.

Táknrænt var þetta með útifundinn á dánardægri Arafats að andi "ófriðarhöfðingjans" sveif yfir vötnunum og eðli Arafats  kom berlega í ljós. Palestínumenn á móti eigin bræðrum.

Ef gyðingarnir verða þvingaðir að samkomulagi sem verður andvana fætt þá fær veröldin að sjá hræðilegar afleiðingar eftir þrjú og hálft ár. Út úr þessu rugli verður enginn friður heldur aðeins biðtími eftir skelfilegum atburðum. Það segir Biblían.

Ófriður mun haldast við allt til enda. En að öllum líkindum erum við komin að birtingartíma Anti-krists.Hvaða friður verður án Friðarhöfðingjans?

Snorri í Betel 

 


Guð er til, alveg örugglega!

Gyðingarnir eru kallaðir "Guðs útvalda þjóð" eða "Guðs fólk". Saga þeirra er litrík og hroðaleg á köflum. En þrátt fyrir allar hörmungar þá eru líka glæsilegar hliðar á sögu Gyðinganna sem vert er að minnast.grafir

Að teljast "Guðs útvalinn" tilheyrir forréttindum. Þá  er lífsstefnan skírari og í ríkara samhengi í sögunni en þeirra sem eiga engan Guð eða æðri tilgang. Og saga gyðinga hefur svo sannarlega slíkt innihald.

Þeir kallast "útvaldir". Það er sama hvað menn segja um útvalninguna þá breytir það engu um að tilvist gyðinganna er ekki studd neinum skynsömum rökum. Hvers vegna að vera gyðingur? Hvar sem þeir hafa búið þá  hafa þeir verið réttdræpir, réttlausir og hataðir. Samt hafa þeir haldið hópinn og varðveitt trúnna á Guð.

 

"ég vil opna grafið yðar...og leiða yður inní Ísraelsland " Esekíel 37:12 

Sama hvar þeir hafa verið fæddir þá eiga þeir þjóðríki og fósturjörð sem mörgum öldum áður tilheyrði áum þeirra. Þeir eiga söguna, landið og trúnna á Guð. Sú trú segir þeim að Guð hafi gefið þeim landið til ævarandi eignar. Sama hverju menn trúa þá er staðreyndin sú að þeir eru komnir í landið, búa í borgum og rækta landið - en þannig er boðað í trú gyðinganna.

Þeir komu til landsins úr útrýmingabúðum Nazista. Sama hvað menn segja "grafir þeirra voru opnaðar" og þeir fluttir á Ísraels-fjöll. Trú okkar hefur ekkert með þetta að gera. Afneitun okkar ekki heldur. En í aldir var þessi boðskapur kallaður "Guða Orð", "Guðs fyrirheit" og "Guðs loforð" . Þetta eru staðreyndir í dag!

Þeim stendur enn ógn af afskiptasemi stórvelda sem og nágranna. Nú er á stefnuskrá að stofnsetja ríki Palestínuaraba og þá á að skipta Jerúsalem milli þessara hópa, gyðinga og Araba. Þetta er samkvæmt trú og boðskap Biblíunnar - Orði hins lifanda Guðs! (Jóel 3: 7)

Þegar saga og trú gyðinganna er borin saman við  Biblíuna þá er augljóst að einhver vissi fyrirfram hvernig þróun mála yrði. Einhver sá augljósa þróun mála löngu áður en atburðir gerðust. Um þessi mál heyrum við í dag sem fréttir fjölmiðla. Gyðingarnir komnir heim, tunga þeirra töluð sem daglegt mál og enn einu sinni á að láta spádómana rætast með því að skipta Jerúsalem milli aðila, þeirra sem "tilheyra útvalningu Guðs" og hinna sem hegða sér á hatursfullan og fjandsamlegan hátt við Guð.

En þó menn sjái augljós merki um að gyðingarnir gætu ekki hafa lifað allar ofsóknir og hörmungar af sem steðjaða hafa að þeim nema Guð hafi gætt þeirra - þá eru menn  samt með heimasíðu og reka markvissan áróður gegn trú á tilvist hins almáttuga Guðs.

Mín niðurstaða er þessi: .!miðað við sögu gyðinganna og Biblíulegt hlutverk þeirra hefur engin þjóð eða kynstofn  reynt slíkar hörmungar, margra alda búsetu í fjandsamlegu umhverfi og lifað af þá sanna þeir tilveru Guðs

Það er vert að athuga alla þætti upplýsinganna en ekki bara þá sem vantrúin leggur fram sem "staðreyndir" í málinu. 

Það sem vita má af reynslu sögunnar ætti að verða öllum sannleikselskandi mönnum staðfesting að tilvera Guðs verður ljós þegar sagan verður hlaðin samhengi.

Vita menn ekki að heimsríkin sem hafa ráðið yfir Ísrael eru Babyloníuríkið, Medar og Persar, Grikkir og Rómverjar? Það er samkvæmt Daníelsbókinni og sagnfræðinni. Vita menn ekki að Evrópa í dag er endurreist ríki Babylóníumanna og Rómverja? Það sérst á trúartáknunum sem Evrópuríkið styðst við.

Auðvitað er Guð til og Jesús Kristur er eingetinn sonur hans. Við þurfum ekki nema viðurkenna staðreyndirnar og trúa afgangnum.

kær kveðja

Snorri í Betel 


Er nútíminn eldgamall?

Af hverju ætli kristnir hafi farið út í þessa umræðu varðandi homma, lesbíur, samkynhneigð eða kynvillu? Eins og hún er í raun alveg steingeld, meiðandi og full af sleggjudómum. Menn hafa mjög stór orð um mig af því að ég samþykki ekki slíkan lífsmáta. Svo eru prestar farnir að saka hvor annan um fóbíu eða jafnvel einelti.

Ég fór út í þessa umræðu á sínum tíma vegna þess að Evrópubandalagið krafðist þess að öll þjóðþing þess legðu fram löggjöf um "rétt samkynhneigðra" til að lifa samkvæmt tilfinningum sínum. Fram að því hafði enginn, prédikari né kirkja, rætt eða "ofsótt" samkynhneigða. Nokkrir prestar voru samkynhneigðir og ég hafði sjálfur kennara sem var prestur og samkynhneigður. Hann var svo sem að spyrja mig  og aðra stráka "hvort eitthvað væri farið að vaxa þarna niðri" . Því var bara svarað á viðeigandi hátt og honum bent á að slíkt væri ekki til umræðu. Málið afgreitt! Okkur fannst þetta fínasti kall og honum var aldrei sýnd lítilsvirðing né annað misjafnt.

En þegar krafa kom frá Evrópu og alþingi að lífsmátinn yrði lögleiddur þá bentu kristnir einstaklingar á að hann væri flokkaður með þjófnaði, framhjáhaldi, græðgi, lygum og illu umtali. Hvers vegna að taka eitt atriðið útúr og samþykkja það með lögum en sleppa hinu?

Þannig var lagt af stað í umræðuna. Nú er niðurstaða komin að menn vilja leiða lífsmátann til altaris og blessa hann. Þá er auðvitað verið að blessa það sem ekki "erfir Guðs ríkið".

Það á kristin kirkja alls ekki að gera og mun ekki gera. En ríkisrekin trúarstofnun munu gera slíkt. Þess vegna ættum við að athuga hvað er í gangi og skilja að hugtökin "skækjan" og "Babylon" eru afhjúpuð. Þeim sannkristnu er ráðlagt að yfirgefa þá staði.

Veistu að Salómon konungur hafði nokkur orð um þetta ( frá því 900 f.kr) hvernig þverrandi skilningur manna á Guði kallaði fram siðferðishrun í þjóðfélögum sem villast frá boðorðum Drottins Guðs. Salómon segir:

"Afleiðing hjáguðadýrkunar

"Ekki sat við það að þeir færu villir vegar um þekkinguna á Guði. Vanþekking þeirra leiddi af sér friðvana líferni en samt nefna þeir slíkt böl frið. Þegar þeir iðka barnamorð við helgihald og launhelgar eða halda tryllingslegar og annarlegar óhófsveislur, þá er hvorki líferni þeirra né hjúskapur framar óflekkaður. Hver myrðir annan með svikum og svívirðir hann með hjúskaparbroti. Alls staðar veður uppi blóð og morð, þjófnaður og vélabrögð, spilling, sviksemi, róstur, meinsæri, áreitni við góða menn, vanþakklæti, saurgun sálna, kynvilla, hjónabandsriftingar, hórdómur og saurlífi.

Dýrkun skurðgoða, sem ekki eru nefnandi á nafn  er upphaf alls ills, orsök og takmark."  (Speki Salómons, kafli 14 vers 22 - 27)

Tekið úr Biblíu 21.aldar sem átti ekki að hafa meiðandi orð né stingandi boðskap. En Guð segir: "sjá ég vaki yfir orði mínu" (Jer.1:12)

Láttu Orð Guðs líka vaka í þér svo þú megir halda vegi þínum hreinum. Fyrst fráhvarfið er komið svona langt þá er mjög stutt í að Jesús Kristur komi aftur. Biddu að hann megi finna þig vakandi.

Segðu: Jesús Kristur, ég veit að þú ert eingetinn Guðs son, fyrirgefðu mér syndir mínar og taktu mig í þinn náðarfaðm. Ég gefst þér - hjálpaðu mér að vera heilshugar við þig! Amen. 

kær kveðja

Snorri í Betel 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Snorri í Betel

Höfundur

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson

Er lífeyrisþegi og notar tímann til að fylgjast með Ritningunum rætast! Var safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri 2004 - 2018 og kennari í Brekkusóla frá 2001 til 2013.

Hef stundað kennslu frá 1973 á Vopnafirði. Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja frá 1975, Barnaskóla Vestmannaeyja, Iðnskóla- Vélskóla og Stýrimannaskóla Vestmannaeyja. Gerðist kennari við Framhaldsskóla Vestmannaeyja við stofnun hans og fram til 1986. Hóf aftur kennslu við Hamarsskóla Vestmannaeyja uns ég flutti til Akureyrar sumarið 2001.

Hef veitt Hvítasunnukirkjunni Betel í Vestmannaeyjum forstöðu fram til miðs árs 2001 og verið forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri frá 2004 - 2018. 

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG_6438
  • IMG_6438
  • IMG_2207
  • IMG_1548
  • friðrik

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband